Tímarit Máls og menningar - 01.02.1962, Page 35
MÝRIN HEIMA, ÞJÓÐARSKÚTAN OG TUNGLIÐ
urnar mínar — nei, ég færi ekki í þær aftur, að minnsta kosti ekki meðan ég
starfaði á elztu löggjafarsamkundu í heimi. Ég yrði heldur að temja mér nýtt
göngulag í röska viku og hreyfa mig að öðru leyti eins mjúklega og ég gæti.
Það leið sem sé að þingslitum, eldhúsdegi og afgreiðslu fjárlaga, dökk reyk-
ský svifu yfir stólum í ráðherraherberginu, töfluneyzla jókst, sumir stungu
upp í sig mörgum lakkrísspörðum í einu.
Svo virtist sem leiðtogar þjóðarinnar væru óragari við það en stundum
áður að biðja mig að reka erindi fyrir sig, en sjálfsagt hafa þeir jafnoft hlíft
mér við snúningum, kunnað því betur að ábyrgur lærisveinn gæti fylgzt með
baráttu þeirra undir lokin, þyrfti ekki að missa af neinu sem máli skifti. Þegar
ég hafði lítið eða ekkert fyrir stafni, til dæms á kvöldfundum, gekk ég um sali
í táknflíkinni minni, þaninn á taugum, stuttstígur eins og japönsk leikkona,
flökti milli deilda og hlustaði á umræður, stóð ýmist úti í skoti og sneri saum-
sprettu að veggnum eða tyllti mér varlega á stóla, sem voru naumast ætlaðir
embættismönnum af mínu tagi. Ég bjóst við úrslitabaráttu gagnstæðra skoð-
ana, hörðum sviftingum, strangri og tvísýnni kollhríð, sem hlyti að enda á
undri og kraftaverki, hallalausum fjárlögum og kannski óvæntri frambúðar-
lausn. En þingmenn voru í fyrsta lagi orðnir svo þrekaðir, og í annan stað
búnir að leiða til lykta svo mörg deilumál og stofna svo rnargar nefndir til
bráðabirgða, að þeir létu sér yfirleitt nægja að kýta um brj óstheilindi eða
ítreka kenningar og röksemdir, sem bæði þeir og ég kunnu nokkurnveginn
utanbókar. Að vísu þóttist ég vita, að þeir mundu færast í aukana andspænis
hljóðnemanum á eldhúsdegi, en öngvu að síður var ég orðinn úrkula vonar
um frambúðarlausn á þessu þingi og hættur að búast við frekari bráðabirgða-
ráðstöfunum til að afstýra hörmungum, þegar norðlenzkur hagyrðingur tók
allt í einu viðbragð og flutti breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið. Á ell-
eftu stundu kvaðst hann vilja spyrna við fótum, hefja á loft merki sparnaðar
og endurreisnar, freista þess að lagfæra augljósa veilu í þjóðarbúskapnum:
Styrkir til sumra skálda og listamanna, sem smeygt hafði verið inn á fimmt-
ándu og jafnvel hina virðulegu átjándu grein, skyldu ýmist niður felldir eða
lækkaðir um helming.
Nú á dögum er það háttur gáfaðra stjórnmálamanna í öllum flokkum að
fara annað slagið einstaklega fögrum og hjartnæmum orðum um ást sína á
bókmenntum og listum. Fyrir röskum aldarfjórðungi lögðu þingmenn ekki í
vana sinn að flíka slíkum tilfinningum í ræðu og riti, né klökkna ódrukknir af
tómri menningarástúð, en á hinn bóginn var fjárveiting þeirra til styrktar
25