Tímarit Máls og menningar - 01.02.1962, Qupperneq 70
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
fund alvarlegum augum og bræðslumaðurinn klóraði sér hugsi í gráyrjótt
skeggið og sagði: — Það er eins og þeim sé séð fyrir nægu rauðvíni...
Togarinn var kominn á ferð aftur og vélin vann með reglubundnum slög-
um. Þeir sátu einir sex aftur í borðsal og horfðu á litla manninn borða. Þetta
var á milli mála, en matsveinninn átti gnægð af köldu kjöti og kartöflum og
litli maðurinn bað aðeins um pipar, svo át hann og stangaði vandlega úr tönn-
unum og brosti til allra þessara þöglu skeggjuðu og forvitnu ókunnu manna.
— Viltu graut? sagði matsveinninn á íslenzku.
Litli maðurinn brosti afsakandi, yppti öxlum og sagði — No comprendo.
— Graut, sagði matsveinninn og tók skeiðina af borðinu og lézt vera að
háma í sig graut.
Litli maðurinn kinkaði kolli og svo át hann heil kynstur af mjólkurgraut og
kaffærði spónamatinn með kanel.
— Það er eins og þeir séu gefnir fyrir kryddið, sagði bræðslumaðurinn.
— Lissabon? spurði einn af yngri mönnunum og beindi máli sínu að
ókunna manninum.
Hann leit upp frá grautarátinu og starði skilningsslj ór á unga manninn.
— Lissabon — Lissabon — Lissabon in Portúgal, sagði ungi hásetinn.
Loksins rann upp ljós, litli maðurinn lifnaði allur, áður dulin glóð kom í
innstæð augun og hann sagði:
— Lisboa, no-no-no-no. Hann hristir höfuðið ákaflega og segir — Sedubal.
Síðan heldur hann langa og líflega tölu og þeir kinka allir kolli og álíta sig
vera með á nótunum — og bræðslumaðurinn stendur á fætur ákveðinn á svip
og nær í þurra peysu og buxur í koju sinni og réttir þessi fataplögg þegjandi
að ókunna manninum. Hann starir á bræðslumanninn hálfforviða og skiln-
ingslaus. Bræðslumaðurinn togar í gegnvotan jakka mannsins og segir: —
Blautt — blautt, þú verður að fara úr þessu og í þurr föt.
Svo hverfa þeir tveir úr borðsalnum og ná í nærföt og sjósokka, og þegar
litla manninum loks skilst að ókunnu mennirnir eru að gefa honum öll þessi
heillegu fataplögg þá þyrmir yfir hann og þurr leðurbrún húðin kringum
munninn hleypur í viprur og hann má vart mæla lengi vel.
Þeir benda honum inn á baðið og koma honum í skilning um, að hann skuli
fara þangað og skipta um. Þegar hann er farinn sitja þeir hljóðir um stund,
þar til bræðslumaðurinn segir: — Þeir eiga víst ekki sjö dagana sæla þessir
menn.
— Hvernig geta þessir menn látið sér koma til hugar að dorga á þessum
kúskeljum hér við Grænland, segir ungi hásetinn.
60