Tímarit Máls og menningar - 01.10.1975, Síða 75
Solsénítsín - pólitískt mat
upp sósíalisma með því að ná skjótt taki á öllum framleiðsluöflum. Við
þurfum að athuga, hvernig þessi meginskilyrði urðu til þess, að ofbeldi
og lygum var beitt í svo ríkum mæli, og auk þess, hvernig þau urðu til að
seinka fyrir, hindra, og loks til að stefna sósíölskum markmiðum stjórn-
arinnar í algera tvísýnu, þeirri viðleitni að skapa nýja félagshætti, sem
leiddu til frelsunar mannkyns.
Enda þótt Solsénítsín lýsi þeirri firringu, sem hann hefur reynslu af,
firringu milljóna manna gagnvart hinu risavaxna stóriðnaðarbákni, þá er
sú mynd, sem hann dregur upp, greinilega afskræmd af hugmyndafræði
afturhvarfsins og ekki í nokkrum tengslum við þá viðleitni að skapa félags-
hætti, sem stuðla að auknu frelsi.
Vanþekking á þáttaskilum í mannkynssögunni (sbr. myndbreytingar
þær, sem verða á vaxandi tré!), hefur raunar ákveðnar afleiðingar, að því
er Solsénítsín varðar. Fyrsta og augljósasta afleiðingin er heimþrá hans
til draumalandsmyndar sinnar af Rússlandi, til lands, þar sem ekki eru
innri móthverfur og engin stéttabarátta. Hann andvarpar sáran og minnir
okkur á, að „öldum saman hafi Rússland flutt út korn“, en nú þurfi að
flytja það inn — en gleymir að geta þess, að þær „umframbirgðir“, sem
fluttar voru út, komu ekki í veg fyrir að bændur syltu í hel í sumum árum.
Onnur afleiðing er sú, að honum er um megn að gera sér grein fyrir
þeim hlutum, sem urðu óendurkræfir við „þáttaskilin" í október 1917
og vegna aðgerða Stalíns, og er þar þó hvorki um að ræða upphaf né
endi rússneskrar eða sovézkrar sögu, þótt opinberir bætiflákamenn vilji
svo vera láta, og segi, að héðan í frá muni öll þróun í landinu verða til
hins betra, og brautir þeirrar þróunar hafi í aðalatriðum verið ákveðnar
um alla framtíð. En sögunni er aldrei „lokið“, og henni verður ekki snúið
við.
I þriðja lagi virðist Solséntsín ekki gera sér grein fyrir hinum sovézka
þætti í föðurlandsást Rússa í dag. Þessi föðurlandsást verður ekki skilin,
né heldur þjóðrembingurinn, sem af henni leiðir, nema tekin séu með í
reikninginn atriði eins og byltingin, hinn glæsilegi árangur í iðnaði, vís-
indum og menningarmálum, sigurinn, sem vannst á Þýzkalandi Hitlers,
nýju landnámssvæðin í Síberíu — í stuttu máli sagt, allt það, sem hefur
auðgað arfleifð rússnesku þjóðarinnar og bandamanna hennar í Sovét-
ríkjunum. Og því ber að bæta við, að gildismat „feðraveldisins“ á ekki
upp á pallborðið hjá æskulýð og kvenþjóð Sovétríkjanna í dag. Lengst
185