Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Side 97
Um strammaskáldskap Málfríðar
þetta verra. Þess vegna breyti ég litlu.“ (Þjóðv.) Svona vann hún ekki við
myndir sínar. Hún rakti upp og breytti eftir því sem henni þótti betur fara.
Velti fyrir sér myndbyggingunni og litasamsetningunni fram og aftur. „Ég
teikna sjálf megnið af þessum ófreskjum sem ég sauma, — einstaka
krossfiski hef ég þó stolið og Svavar Guðnason hefur teiknað ýmis kvikindi
fyrir mig. Svo hef ég stækkað upp myndir eftir Kjarval og tekið upp gömul
munstur . . . listelskur maður sagði mér að verk mín væru surrealistisk ..."
(Þjóðv.)
Málfríður hafði næmt auga fyrir því dekoratíva. Fyrirmyndir sínar sótti
hún gjarnan í vatn, sjó, allt sem lifði í bleytu. „ . . . undi ég mér vel í mörg
næstu ár við að skoða regnpolla og yfirleitt alla bleytu, allt sem blautt var og
gljáði, það vaktist upp í þessu fegurð og skraut sem af öðrum heimi.“ (Sál.
35)
Þetta auga nýtist henni svo þegar hún fer að sauma eftir gömlum
mexíkönskum mynstrum. Þeim kynntist hún hjá listahjónunum Sigrúnu
Guðjónsdóttur og Gesti Þorgrímssyni, en einmitt á þeim tíma skreyttu þau
leirmuni sína oft með slíkum mynstrum. Málfríður lék sér að mynstrunum á
sinn hátt, í sambandi við liti og uppröðun. Sköpunargleðin dreif hana áfram,
hvort sem var við skriftir eða krosssaum.
Ég bað Hildi Hákonardóttur, vefara að segja álit sitt á strammaskáld-
skapnum:
Aðspurð hvað mér þætti um púðana hennar Málfríðar kom mér fyrst í hug
þessi þrjóska okkar kvennanna, að viðurkenna ekki hvað krosssaumurinn er
óþjáll til frjálsrar listsköpunar vegna jafnleika sporanna. Málfríður var ekki
ein um þessa þrjósku og ekki heldur framsæknar danskar hannyrðakonur
millistríðsáranna. Sophie Taeuper-Arp gerði undurfagrar krosssaumsmyndir
í hita Dadaismans.
Skýringin á þessari þrjósku er ef til vill sú að þetta er nú einu sinni
sparisporið okkar, sem helst ekki mátti sauma nema á sunnudögum, ekki af
því að það væri heilagt, heldur af því að það var ekki nytsamlegt.
Krosssaumurinn hefur þá sérstöðu, sökum þess hve grófan grunn þarf
undir hann, að hann er helst notaður til myndgerðar en ekki eins og flest
önnur útsaumsspor til að fegra flíkur. Eðlis síns vegna er hann skyldur flosi
og hnútateppum og hefur mörgum þjóðum í Austurlöndum og í Ameríku
fyrr á öldum tekist að gæða verk sín fágætu lífi þrátt fyrir allar takmarkanir.
Sama má segja um myndvefnaðinn þar sem frumeindin er millibil uppistöðu-
þráðanna og þykkt ívafsins. Myndvefurinn er þó miklu frjálsari og flatarbygg-
ingin allt önnur þar sem byrja verður við einn jaðarinn og halda síðan áfram
þvert yfir flötinn eins og þegar regnskúr fer yfir land. Krosssaum má byrja í
miðju formi, vinna sig út uns komið er að yfirborði þess, flytja sig síðan að
næsta formi og svo koll af kolli og fylla síðast út í grunninn.
223