Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.04.2015, Blaðsíða 48
G
amli torfbærinn í botni Önund-
arfjarðar kúrði í næturhúminu
undir fjallinu Hesti. Grös voru
tekin að sölna, haustvindar
gnauðuðu og það ýrði úr
dimmum skýjum sem sást móta fyrir á bóls-
vörtum himni. Nýi bílvegurinn yfir fjallið til
Ísafjarðar var þegar orðinn ófær vegna snjóa.
Hæsti fjallvegur Íslands. Þó var ekki liðin
vika af október. Árið er 1938. Mjólkurbát-
urinn Fagranes lá við bryggjuna á Flateyri.
Í dagrenningu var fullorðna fólkið á Hesti
komið á stjá. Guðjón bóndi sótti klárinn og
spennti hann fyrir hestvagninn heima á hlaði,
sótti reiðtygi og gaf á garðann. Ærnar voru
komnar á hús. Sveinfríður húsfreyja hafði
læðst út úr hjónaherberginu innst á baðstofu-
loftinu framhjá sofandi börnunum og undirbjó
morgunverkin, mjaltir og morgunverð. Við-
hafnarfötin hafði hún tekið til deginum áður.
Hún var kvíðin. Leit oft út um gluggann og
horfði út fjörðinn. Ferðalagið lagðist ekki vel í
hana. Erfitt að skilja við stúlkuna og afhenda
hana vandalausum suður í Reykjavík fjarri
heimahögunum. Stúlkan var einstaklega bráð-
ger, dugleg að hjálpa til við heimilisstörfin og
bústörfin, búin að ná þó nokkuð góðum tökum
á saumaskap, hekli og prjóni þótt hún væri
aðeins á áttunda ári. Og hún var iðin við að
hjálpa til við bakstur og þvotta, fór ófáar ferð-
ir niður að Korpuá með heimilisþvottinn, þar
sem ævinlega stóð hlóðapottur á klöpp við ána
fyrir bæina undir fjallinu. Verst að geta ekki
útskýrt fyrir henni hvað var í vændum. Bend-
ingar dugðu skammt þegar mikilvægum upp-
lýsingum þurfti að miðla. Sveinfríður rifjaði
upp í huganum fyrri sjóferð telpunnar. Þá
hafði pabbi hennar farið með hana þriggja ára
suður til læknis eftir að þau hjónin tóku eftir
því að hún leit ekki við þegar á hana var yrt.
Jafnvel ekki þótt þau hækkuðu róminn.
Læknirinn fyrir sunnan staðfesti heyrn-
arleysið.
Skyldi suður til náms
Sveinfríður leit til Brynhildar litlu sem svaf í
hjónaherberginu, stúlkan á öðru ári, veik-
burða og þreklítil. Hún fór síðan inn í baðstof-
una og settist á rúmstokk sunnanmegin,
horfði á Hervöru sofandi við hlið Maríu systur
sinnar sem var árinu yngri. Í næsta rúmi
voru aðrar tvær dætur, Helga og Svava, fimm
ára og fjögurra ára, og í rúmi við norðurgafl-
inn strákarnir tveir, sá elsti, Þorvarður, níu
ára, og sá yngsti, Hafsteinn, þriggja ára frá
því í sumar. Litli drengurinn var líka heyrn-
arlaus eins og Hervör. Af hverju heyrðu börn-
in ekki? Þau höfðu ekki fengið nein svör hjá
lækninum en skólastjórinn í sveitaskólanum
hafði sagt að þau yrði að fara með stúlkuna
suður til náms. Til Reykjavíkur. Þar væri
skóli fyrir mállaus börn og heimavist. Hann
hafði fengið pappíra að sunnan með lögum frá
1922 um kennslu heyrnar- og málleysingja.
Þar kæmi fram að skólaskylda væri níu ár og
hæfist við átta ára aldur.
Hún leit yfir börnin sem sváfu vært. Það
var tekið að birta af degi. Hugurinn var á
flögri, gleði og depurð tókust á þegar hún
hugsaði til allra barnanna. Í hjarta sínu var
hún hamingjusöm yfir þessum hraustu börn-
um sem voru komin yfir erfiðasta hjallinn í líf-
inu, nema Brynhildur, en henni var líka hugs-
að til barnanna sem þau Guðjón höfðu misst
og þá hvolfdist myrkur yfir hugann. Síðast
höfðu þau rétt fyrir jólin í fyrra lagt til hinstu
hvílu tveggja mánaða stúlkubarn. Hún hafði
ekki einu sinni verið komin með nafn. Þeir
höfðu líka dáið allir þrír elstu drengirnir, Sig-
urður Hlöðver, sem dó fimm mánaða í árs-
byrjun 1926, drengurinn sem fæddist þá um
sumarið og lifði aðeins í fáeina daga, og Svein-
björn Guðjón sem dó þriggja mánaða haustið
1928.
Síðan voru liðin tíu ár. Sveinfríður hlustaði
eftir heitum andardrætti barnanna í svefn-
inum. Úti heyrði hún Guðjón bjástra við að
undirbúa ferðina á Jarpi út á Flateyri. Hún
stóð upp og vakti Þorvarð. Hann þurfti að
fara í skólann sem var við túnfót bæjarins.
Svo beygði hún sér niður að Hervöru, kyssti
hana á kinnina. Stúlkan opnaði augun og las
út úr bendingu móður sinnar að hún ætti að
fara á fætur og koma niður.
Fjölskyldan var fátæk
„Ég man ekki mikið eftir þessum degi heima
á Hesti,“ segir Hervör. „Sjálfsagt hef ég verið
hissa á því að vera klædd í betri fötin og fara
með foreldrum mínum á Jarpi út á Flateyri
án þess að vita hvert ferðinni væri heitið.
Skelfingin greip mig ekki fyrr en ég var kom-
inn suður.“
Hervör segist muna eftir að fjölskyldan hafi
verið fátæk en samt hafi farið vel um þau í
litla torfbænum. „Ég minnist þess ekki að ég
hafi gert mér grein fyrir því að ég væri eitt-
hvað öðruvísi en systkini mín. Sjálfsagt hef ég
undrast af hverju þau hreyfðu svona mikið
varirnar og líkast til hef ég reynt að herma
eftir þeim. En ég man ekki eftir neinu nema
ástúð og mikilli vinnu. Það reyndu allir að
hjálpast að.“
Þær mæðgur settust upp í hestakerruna í
morgunskímunni og Guðjón bóndi fór á bak
Jarpi. Meðferðis var lítil og lúin ferðataska og
mjólkurbrúsi. Þótt stúlkan hefði ekki hug-
mynd um það hvert ferðinni væri heitið fannst
henni spennandi að sitja í vagninum í betri
fötunum. Ferðalagið út á Flateyri tók innan
við hálftíma. Þau fóru niður að bryggjunni.
Sveinfríður tók í hönd stúlkunnar og leiddi
hana um borð í Fagranes. Guðjón tók tali
bændur sem voru að koma með mjólkurbrúsa
um borð í bátinn. Þótt hann væri einungis
með þrjár kýr í fjósi gat hann engu að síður
selt dálítið af mjólk til Ísafjarðar. Á bryggj-
unni var líka Kjartan mágur hans sem hafði
verið vinnumaður hjá þeim á Hesti en var nú
sestur að á Flateyri.
Á hrollköldum haustmorgni sigldi Fagra-
nesið frá Flateyri. Hervör veifaði til pabba
síns og frænda. Það hafði lygnt og báturinn
risti mjúklega öldurnar. Mæðgurnar vöfðu ut-
an um sig tepparæskni þar sem þær sátu á
hörðum bekk í stýrishúsinu. Önnur hlustaði á
eintóna hávært vélarhljóðið en hin heyrði ekk-
ert. Horfði til himins og taldi fugla sem svifu
hjá. Þegar komið var fyrir Sauðanes hvessti
aðeins en lygndi aftur þegar Fagranesið var
komið í skjól undir Stigahlíð. Sveinfríður var
föl á vanga þegar þær mæðgur stigu á land á
Ísafirði. Þær áttu vísa næturgistingu hjá vina-
fólki í bænum.
Daginn eftir fóru þær mæðgur í heimsóknir
því strandferðaskipið myndi ekki leggja frá
bryggju fyrr en síðdegis. Þær heimsóttu Sig-
urlaugu systur Sveinfríðar sem átti tvær dæt-
ur, Sigrúnu sem var á svipuðu reki og Hervör
og Kristínu litlu sem var ekki orðin tveggja
ára. Hervöru þótti skemmtilegt að fara á milli
húsa og fá sætabrauð og kruðerí. Eftir hádeg-
ið fóru þær í bæinn, gengu um Hafnarstræti
og Silfurtorg. Hervör horfði hissa á öll stóru
húsin, sum þeirra þrjár hæðir og ris, bílana
sem brunuðu um holóttar göturnar, ekki síst
vörubílana þar sem menn stóðu uppi á pall-
inum, en þarna voru líka karlar með hesta-
kerrur og fólk á reiðhjólum. Og henni varð
starsýnt á turnspírur á nokkrum húsanna,
sérstaklega tvær spírur á stóru ævintýralegu
húsi við Hafnargötuna með fjórum bókstöfum:
F-E-L-L. Upp úr hálffjögur voru þær komnar
á skipsfjöl með ferðatöskuna. Þær komu sér
fyrir í káetu neðan þilja. Esja lagði úr höfn
klukkan fjögur. Framundan var tveggja daga
volk á úfnu hafi. Sveinfríður lagðist fyrir.
Henni leið illa á sjó.
Hervör minnist þess á sjóferðinni að
mamma hennar þurfti oft að fara upp á dekk.
Hljóp út úr káetunni og upp stigann. Hervör
elti hana eitt sinn. Hún sá móður sína standa
við borðstokkinn og gubba. Hún var hvít af
ógleði. Hvítfyssandi hafið barði skipið að utan
og það veltist í öldunum. Sveinfríður benti
Hervöru á matsalinn og gaf henni til kynna
með bendingum að hún þyrfti að fá sér eitt-
hvað í svanginn. Sjálf hristi hún höfuðið. Hún
hafði enga matarlyst. Lagðist aftur fyrir í
vanlíðan.
Þetta var engin skemmtisigling. Hervör fór
í rannsóknarleiðangra um skipið milli þess
sem hún svaf eða sat hjá veikri móður sinni.
Hún fann ekki fyrir sjóveiki. Hún minnist
þess ekki að hafa velt því fyrir sér hvert þær
væru að fara, líkast til hélt hún einfaldlega að
þær væru að heimsækja einhvern ættinga. Og
snúa síðan heim aftur. Um borð voru þó
nokkuð margir farþegar en flestir fullorðnir,
fá börn. Ekkert á hennar aldri. Tíminn leið
löturhægt.
Loks sigldi strandferðaskipið inn í höfnina í
Reykjavík. Ljósin í bænum lýstu upp síðdeg-
isrökkrið og Hervör horfði hugfangin á ljósa-
dýrðina. Höfuðborgin var henni nýr heimur,
stór og framandi. Hún stóð á þilfarinu þegar
Esja lagðist að bryggju, togaði í móður sína
og benti stórum augum á allt það nýstárlega
sem fyrir augu bar, meðal annars kolakr-
anann sem gnæfði yfir hafnarsvæðinu. Svein-
fríður var veikluleg eftir sjóferðina, aðeins
reikul í spori þegar hún gekk niður landgang-
inn með tápmikla dóttur sína sem var full eft-
irvæntingar og glaðlynd að eðlisfari.
Þær mæðgur gengu rakleitt frá skipsfjöl yf-
ir á Lækjartorg, upp Laugaveginn að
Hlemmi. Skammt þar fyrir austan staðnæmd-
ust þær fyrir utan þriggja hæða timburhús
með skáþaki, Stakkholt 3, og Sveinfríður barði
að dyrum. Miðaldra lágvaxin kona kom til
dyra og kynnti sig: Margrét Bjarnadóttir
Rasmus. Hervör tók strax eftir barnaskar-
anum að baki henni, mörg forvitin andlit og
margar hendur á lofti, margar bendingar og
tákn. En hún starði líka á hin börnin sem
voru öðruvísi og undarleg í háttum. Frú Ras-
mus vísaði þeim upp á efstu hæðina undir súð
þar sem voru mörg rúm. Þetta var heimavist
stelpnanna. Hervör fylgdist með móður sinni
og konunni ræða saman án þess að átta sig á
samtalinu. Hervör horfði út úm gluggann á
uppljómuð stræti höfuðborgarinnar, horfði út
um vesturgluggann niður Laugaveginn og til
norðurs á sérkennilegt stórt hvítt hús með
tvær burstir sem hún síðar fékk að vita að
væri gasstöð. Undraveröld í augum stúlk-
unnar.
Allt í einu stóð Sveinfríður upp, faðmaði
Minningarbrot
heyrnarlausrar stúlku
STÚLKUBARN Á ÁTTUNDA ÁRI FER EINN HAUSTDAG Í LANGFERÐ MEÐ MÓÐUR SINNI FRÁ ÖNUNDAR-
FIRÐI SUÐUR TIL REYKJAVÍKUR ÁN ÞESS AÐ VITA HVERT FERÐINNI ER HEITIÐ. LITLA STÚLKAN ER SKILIN
EFTIR OG UPPLIFIR SIG EINA OG YFIRGEFNA Í STÓRU HÚSI MEÐ ÓKUNNUGU FÓLKI. HÚSIÐ ER MÁLLEYS-
INGJASKÓLINN OG STÚLKAN ER HERVÖR GUÐJÓNSDÓTTIR FYRRVERANDI FORMAÐUR FÉLAGS HEYRNAR-
LAUSRA SEM RIFJAR UPP MINNINGAR BERSKUNNAR, BÆÐI SÁRAR OG LJÚFAR.
Gunnar Salvarsson gunnisal@gmail.com
Hervör á fermingaraldri. Myndin er tekin við
Málleysingjaskólann í Stakkholti 3 þar sem hún
var nemandi og síðar starfsmaður.
*Loks sigldi strand-ferðaskipið inn íhöfnina í Reykjavík. Ljósin
í bænum lýstu upp síðdeg-
isrökkrið og Hervör horfði
hugfangin á ljósadýrðina.
Mannlíf
48 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19.4. 2015