Húnavaka - 01.05.1966, Síða 76
74
HÚNAVAKA
Því lagði ég hiklaust út í vatnselginn, þar sem mér fannst einna
árennilegast. Jarpur fetaði sig hægt, en örugglega áfram og sneiddi
hjá jökunum, eftir því sem hann gat. Annað slagið reyndi ég að
kanna botninn með stafnum, en það kom að litlu gagni, því straum-
urinn var það þungur, að ég gat lítið ráðið við stafinn. Vatnið var
vel á miðjar síður á hestunum, þar sem dýpst var. Yfir ána komst
ég slysalaust, en ekki var það fyrirhyggju minni að þakka og það
var mér fyllilega ljóst, þegar ég var kominn yfir, að ég átti Jarp
líf mitt að launa, eins og oft mun hafa átt sér stað í erfiðum vetrar-
ferðum, að þá var það hesturinn, sem skar úr um ferðalokin. Ekki
var þeim þó æfinlega launað sem skyldi, en það er önnur saga.
Nú var komið myrkur, en ég kveið þó engu um það, sem eftir
var ferðarinnar, — þó eftir væri að komast yfir Vatnsdalsá.
Eg vissi að Flóðið hafði verið á vel traustum ís og ekki gat komið
til mála að það hefði brotið sig upp og ég þaulkunnugur á þeim
slóðum. Lét ég því hestana taka úr sér hrollinn, þegar upp úr Gljúf-
urá kom, enda voru þeir orðnir heimfúsir, svo að ekki þurfti að
hvetja þá. Ferðin gekk því bæði fljótt og vel heim í kvöldhúminu,
og lýkur hér með frásögn þessari.
Mér hefur verið sagt, að við Staupastein í Hvalfirði hafi áður verið áð og
drukkið staup. Nú er af sem áður var.
EKIÐ FRAM HJÁ STAUPASTEINI.
Við þig kannast varla neinn,
vaktir áður kæti.
Þarna ertu Staupasteinn,
stendur höllum fæti.
Suður á landi hitti ég glensmikla símamenn, er sendu mér boð, er ég svaraði
þannig:
Það er öruggt að ég met
umhygguna sanna.
Endurgoldið ei þó get —
ástir símamanna.
Inga Skarphéðinsdóttir, Blönduósi.