Húnavaka - 01.05.1966, Síða 89
INGA SKARPHÉÐINSDÓTTIR, Blönduósi:
Gakktu með mér til Gíe&innar
Þorpið lá í svefni. Húsin voru myrk og stóðu á nöturlegum strjál-
ingi umhverfis víkina. Öldurnar gnauðuðu við ströndina og sendu
smáskvettur upp á svartan sandinn. Dagurinn var að stjaka nóttinni
af himninum. Það kom allt í einu ljós, í einn kjallaraglugga.
Jói mjólkurbílstjóri var setztur framan á og farinn að tosa sér í
fötin. Hann varð að vakna fyrir dag. Utúrsyfjaður varð hann að
aka þessa sömu leið, dag eftir dag, árið út og árið inn.
Hann var næstum alltaf þreyttur og illa sofinn, en nú tók þó út
yfir. Það hafði verið haldin Gleðivika í þorpinu. Samkomuhúsin
voru full af fólki, nætur og daga.
Hann gat svo lítið skemmt sér fyrir þessari árans mjólk. Ekki und-
ur að strákarnir hefðu kallað hann Mjólkur-Jóa.
Það leið ört á vikuna, nú var fimmtudagur. í kvöld skyldi liann
fara á dansleikinn og verða svo út úr, að hann yrði borinn heim.
Jói hló og var nú vel vaknaður. Hann tók rakvélina sína og setti
hana við rafstrauminn, hann fann hana strjúkast notalega við vanga
sína. Hann sat þarna einn og hljóður, mjósleginn og gugginn, en í
huga hans byrjuðu að birtast fagrar myndir af kvöldinu framundan.
Hann hafði aldrei átt sér kærustu eða vinkonu, alltaf verið út-
undan í lífinu. Enginn þekkti þrár hans og vonir.
Það héldu víst allir, að þær hefðu drukknað í mjólk. Hann átti
sér drauma eins og hinir, en aðeins fyrir sjálfan sig. Hann naut
þeirra einn, meðan bíllinn nuddaðist áfram endalausan veginn,
dag eftir dag.
Það hafði frosið um nóttina, en bíllinn braut skænið af pollun-
um svo gusurnar gengu í allar áttir. Hann hossaðist á ójöfnunum og
skvampaðist niður í lægðirnar, þar var vottur af holklaka, það var
auðséð að vorið var í nánd.