Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 6
ÞÓR MAGNÚSSON
HÖRÐUR ÁGÚSTSSON,
LISTMÁLARI OG FRÆÐIMAÐUR
Minning
Hörður Ágústsson listmálari og fræðimaður, og fyrr formaður Hins
íslenzka fornleifafélags, lézt á Landspítalanum í Reykjavík hinn 10.
september 2005. Það er venja að Árbók minnist í nokkru genginna
formanna og því skal farið hér nokkrum orðum um þennan horfna
samstarfsmann í þjóðminjavörzlu, fræðimanninn og listmálarann, sem kom
svo víða við og lét sér fátt mannlegt óviðkomandi.
Hörður fæddist í Reykjavík 4. febrúar 1922. Foreldrar hans voru hjónin
Ágúst Markússon veggfóðrarameistari og kona hans Guðrún Guðmunds-
dóttir. Í ættum hans voru listamenn og hagleiksmenn á ýmsar iðnir og
mat Hörður það nokkurs að vera kominn af Ámunda Jónssyni smið,
hinum þekkta hagleiks- og listamanni þjóðarinnar á 18. öld, sem markaði
svo mörg spor sem enn sjást í menningarsögu og listmennt landsmanna,
enda allt í senn kirkjusmiður, útskurðarmeistari og málari. Hörður vann
líka ötullega að því að leita uppi heimildir um og kynna landsmönnum
marga hina gömlu listamenn þjóðarinnar, sem sumir voru nánast gleymdir
orðnir og hefja þá og verk þeirra til virðingar.
Eftir stúdentspróf 1941 nam Hörður um hríð við verkfræðideild
Háskóla Íslands, mun líklegast byggingarfræðin hafa staðið huga hans
nærri. Hann nam síðan teikningu og málaralist í Handíðaskólanum
í Reykjavík á árunum 1941-1943 og síðan eitt ár eftir stríðið við
Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Síðan lá leið til Parísar þar
sem hann dvaldist árin 1947-1952 við listnám, meðal annars við Académie
de la Grande Chaumière. Hann ætlaði þá að helga málaralistinni líf sitt.
Hann hreifst af nýjungum í málaralist, einkum abstraktstefnunni, og
gerðist einn af forgöngumönnum hennar hér á landi og sjálfur málaði
hann í þeim anda.