Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 7
Er heim var komið kenndi Hörður við Handíða- og myndlistaskólann
í Reykjavík árin 1953-1959 og síðan við Myndlista- og handíðaskóla
Íslands árin 1962-1989, og var skólastjóri hans árin 1968-1975.
Hörður hélt á lífsferli sínum fjölda myndlistarsýninga og sýningar voru
haldnar honum til heiðurs. Listasafn Íslands hélt yfirlitssýningu á verkum
hans árið 1983 og vorið 2005 var mikil yfirlitssýning á málverkum hans
á Kjarvalsstöðum, þar sem gerð voru ítarleg skil lífsferli hans í listum og
menningarsögurannsóknum. Þar var sérstaklega dregið fram og skýrt
í myndum, teikningum, líkönum og máli rannsóknarstarfið, sem gerði
hann þekktastan með þjóð sinni, húsarannsóknir, uppmælingar, heimilda-
rannsóknir, ljósmyndir og tillögur að viðgerðum og endur byggingum
gamalla bygginga og mannvirkja í landinu. Þann þátt ber að fjalla
séstaklega um, þar sem hann ruddi þar áður lítt troðnar brautir og gerði
fjölmargar og merkilegar uppgötvanir á byggingarháttum landsmanna,
allt frá elztu tímum og til okkar daga. Hann rakti sögu og breytingar á
húsakynnum og byggingarháttum, rannsakaði þróun bygg ingar listarinnar
og gerði grein fyrir byggingarefnum, smíðum, smiðum og verklagi.
Hörður var mikilvirkur í störfum sínum og rannsóknum, enda var
hann agaður við sjálfan sig, skipulagði tíma sinn vel og var eljumaður hinn
mesti. Hann var oft ekki heilsuhraustur og varð að gæta sín í mataræði og
lifnaðarháttum. Hann tók sér að jafnaði hvíld að loknum hádegisverði, en
vann síðan oft sleitulaust daginn langan að því viðfangsefni, sem gagntók
huga hans þá stundina.
Hörður stofnaði ásamt fleiri listamönnum og rithöfundum tímaritið
Birting, sem kom út á árunum 1955-1968. Hann var einn af rit stjórunum
og birti þar greinar um sjónlistir, ekki sízt um byggingalist, nýja og forna.
Hörður sat í stjórn Torfusamtakanna, sem upphaflega voru stofnuð til
verndunar einnar elztu húsaþyrpingar í Reykjavík og þróuðust síðan til
annars og meira. Hann sat í safnráði Listasafns Íslands og formaður Hins
íslenzka fornleifafélags var hann árin 1982-2001.
Rannsóknarstarf Harðar var annars vegar fólgið í rannsóknarferðum
út um landið, sem hann fór um árabil með styrk úr Vísindasjóði, en
hins vegar könnun skjalagagna og hvers kyns ritaðra heimilda, einkum í
Þjóðskjalasafni Íslands, en að auki átti hann tal við fjölda fólks, sem gat
frætt af eigin reynslu. Hörður uppgötvaði og vann fræðilega úr miklum
fjölda heimilda, hann var víðlesinn í fræðiritum, og einnig bókmenntum
allra alda og varð með tímanum mikill fræðasjór um fjölmarga þætti
íslenzkrar menningarsögu og miðlaði þá jafnframt öðrum af þekkingu
sinni og hvatti aðra til fræðistarfa og rannsókna.
6 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS