Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 9
hann tók til rækilegrar meðferðar fornu fjalastúfana frá Flatatungu og
Bjarnastaðahlíð og fleiri forna húsviði nyrðra. Fræðimenn höfðu fjallað
um ýmsa þeirra, en Hörður tók þá til nýrrar yfirvegunar og endurskoðaði
niðurstöður fyrri fræðimanna, og kom með nýjar og skýrari niðurstöður.
Hér sést bezt hin yfirgripsmikla þekking hans á fornmenningu norrænna
þjóða, og byggði þessi útgáfa á margra ára rannsóknarvinnu. Þá hófst hann
handa við útgáfu á rannsóknarverkinu um fornleifarannsóknir í Skálholti,
sem Kristján Eldjárn hafði staðið fyrir ásamt Håkon Christie, en Kristján
féll frá verki sínu að útgáfunni áður en því væri lokið nema til hálfs. Fyrsta
bindið kom út 1988 undir heitinu Skálholt, fornleifarannsóknir, og var að
miklu leyti fullvinnsla á rannsóknarskýrslum þeirra, er þar voru að verki.
Það verður að segja, að líklegast var Hörður eini fræðimaðurinn sem hefði
getað unnið þetta verk til sæmilegrar hlítar eftir að rannsóknarmannanna
naut ekki lengur við, enda var hann orðinn þaulkunnugur verkinu við
rannsóknir sínar og hafði enda rætt mikið við Kristján, Håkon og Gísla
Gestsson um rannsóknirnar, en þeir störfuðu mest að rannsóknunum í
Skálholti.
Síðan tók hann til við framhaldið, næsta bindið var Skálholt, kirkjur,
1990, sem var algerlega rannsóknarverk hans sjálfs á byggingarsögu
hinna fyrri Skálholtskirkna, en byggði þó að sjálfsögðu á niðurstöðum
fornleifarannsóknanna. Bindið um Skrúða og áhöld Skálholtskirkju kom
út 1992. - Þriðja stóra rannsóknarverkið frá hendi Harðar var tveggja
binda ritverk, heildarniðurstaða af hinum áratugalöngu rannsóknum
hans á byggingararfinum, Íslensk byggingararfleifð I-II, sem kom út árin
1998 og 2000. Hann kallar fyrra bindið ágrip af byggingarsögu, en það er
þó gríðarlega yfirgripsmikið og grundvallarrit, og seinna bindið er að
meginhluta það sem hann kallaði varðveisluannál, þar sem gerð er grein
fyrir því sem unnizt hafði í friðun, verndun og viðhaldi byggingararfs
þjóðarinnar, jafnframt því sem þar fylgdu óskir um frekari vernd og
framtíðarstörf á þessu sviði.
Síðustu misserin vann Hörður ósleitilega eftir því sem heilsa leyfði
að rannsóknum á staðnum í Laufási við Eyjafjörð, sem hann hafði lagt
grundvöll að fyrir mörgum árum. Fyrra bindi þess rannsóknarverks kom
út árið 2004 og fjallaði um staðinn sjálfan, en annara er nú að koma út
bindi um kirkjurnar á staðnum sem hann vann að og tók síðustu krafta
hans og mun það vonandi sjá dagsins ljós innan tíðar.
Fyrir tvö þessara ritverka, ritið um Skálholtskirkjur og fyrra bindi
rannsóknarverksins Íslensk byggingararfleifð, hlaut Hörður Íslenzku
bókmenntaverðlaunin. Þá hlaut hann verðlaun úr Minningarsjóði Ásu
8 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS