Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 55
séu búnir að vinna. Eftir þetta gengu málin hratt fyrir sig og 14. maí
samþykkti Egill heimild til Stjórnarráðsins um ótakmarkaða kolatöku auk
leyfis til að leggja vegi, byggja skýli og bryggju og nota landið eins og
námuvinnslan útheimti. Leigan var 3 krónur og 50 aurar á hvert brottflutt
tonn. Það fór hins vegar svo að stjórnin keypti námuna fyrir 16000 kr. og
var afsalið gert 16. ágúst 1917.15
Jónas frá Hriflu fullyrti í grein um Tungunámu í Tímanum að nokkrir
menn hefðu ásett sér að klófesta námuna áður en til þess kæmi að
hreppurinn neytti forkaupsréttar og ætluðu að láta neyðina skapa verðið á
kolunum.16
Hafist handa í Tungunámu
Jónas Þorsteinsson verkstjóri var ráðinn til að stjórna námunni. Hann var
vegavinnuverkstjóri og hafði unnið við brúarsmíði. Hann hafði einnig
unnið í Dufansdalsnámunni við Arnarfjörð og mun það hafa verið
forsendan fyrir ráðningu hans. Skriflegur samningur var gerður við hann
síðar og þóttu ýmsum launakjör hans ærið rífleg, nálægt ráð herra launum
fullyrti Gísli Sveinsson í umræðum um rekstur námunnar á Alþingi.17
Meðal þess sem Jónas gerði að skilyrði fyrir ráðningu sinni var að
vinnan við námuna yrði ekki bara dýrtíðarvinna heldur skyldi einnig
ráða hrausta og duglega menn til verksins. Með því móti yrði árangur af
námurekstrinum sem mestur og slysahætta minni.18
Jónas verkstjóri fékk misjöfn eftirmæli. Gísli Sveinsson var mjög
gagnrýninn á störf hans í umræðunum á Alþingi og einnig verður vart
við óánægju hjá Geir Zoëga vegamálastjóra. Benjamín Sigvaldason
lýsir honum hins vegar þannig að hann hafi verið vinsæll, meinlaus og
afskiptalaus. Hann hafi aldrei skipt sér af verkunum sjálfum en séð um
alla yfirstjórnina. Jónas hafi verið prúðmenni, glaðlyndur og góðgjarn og
umgengist verkamennina sem jafningja.19 Nokkuð kveður við annan tón
í frásögn Theódórs Friðrikssonar:
Jónas yfirmaður hafði þar [í húsinu sem reist var við námuna.
Athugasemd höfundar] tvær rúmgóðar stofur. Þar voru bornir fyrir hann
sérstakir réttir um allar máltíðir, og færði sama stúlkan honum mat inn
ævinlega. Sást það í hvívetna, að hann var þarna fyrir öllum mönnum.
Hann gætti þess vandlega, að honum væri sýnd sem mest virðing og
óbreyttir verkamenn træðu honum eigi um tær. Þótti það lítillæti af hans
hálfu, er hann var svo alþýðlegur að þiggja í nefið hjá verka mönnum, en
honum þótti gott neftóbak eitthvað það bezta, er honum var boðið... 20
54 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS