Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 70
gufuvél og pressur til að knýja borana sem notaðir voru við vinnsluna
og var vélin sett upp fyrir framan námuna. Gufuvélin var mikið verkfæri
en svo orkufrek að hún tók til sín stóran hluta af bestu kolunum. Einnig
voru fluttir vestur járnbrautarteinar og önnur tól til að koma kolunum
frá námunni. Leifar af gufuvélinni stóðu á planinu fyrir framan námuopin
fram á 6. áratuginn en þá féll hún ofan í fjöruna eftir að sjórinn hafði
grafið undan henni og nú er hún með öllu horfin.
Alls voru fjögur op á námunni. Þrjú þeirra voru samtengd með
göngum en hið fjórða var vestar og hærra. Ari Ívarsson telur að þar hafi
einungis verið könnunargöng en ekki eiginleg námavinnsla. Nú er aðeins
hægt að komast inn um eitt námaopið en frá þeim göngum er innangengt
í aðra hluta námunnar.
Unnið var af krafti í námunni sumarið 1917 en um haustið var
rekstrarféð á þrotum og námufélagið lagði upp laupana. Meðan
námuvinnslan stóð sem hæst voru tugir manna að störfum við Stálfjall.
Viðurgerningur þótti góður og þar var gefið út handskrifað blað,
Námukjaftur, sem Hannes Kristjánsson, sem síðar var kenndur við Litla
kaffi, ritstýrði. Ekkert hefur varðveist af því eftir því sem best er vitað.
Kolin úr Stálfjallsnámunni hafa hlotið misjöfn eftirmæli eins og kolin
úr öðrum námum. Guðmundur koli hélt uppi hörðum áróðri fyrir kolum
sínum í Reykjavíkurblöðunum, bæði með greinaskrifum og viðtölum, en
það mun sannast sagna að þau stóðu ekki undir væntingum. Kolavinnslan
skapaði hins vegar talsverða atvinnu meðan á henni stóð og ekki er að
efa að kolin úr Stálfjalli hafi komið að góðum notum í kolaskortinum á
stríðsárunum rétt eins og Tungukolin.66
Í umræðunum á Alþingi 1918 kom fram í máli Benedikts Sveinssonar,
þingmanns Norður-Þingeyinga, að geysilegur halli hefði orðið, áður en
yfir lauk, á Stálfjallsnámunni, jafnvel meiri en á Tjörnesi þótt þar hafi verið
um að ræða stórrekstur og náman verið rekin með nægum áhöldum.67
Náman í Gili við Bolungarvík
Talsvert var unnið af surtarbrandi veturinn 1916-17 í Syðridal við Gilsá,
nærri Bolungarvík. Guðmundur Bárðarson jarðfræðingur rannsakaði
staðinn 1917 og segir að Bolvíkingar hafi náð í eldsneyti þar um nokkurt
skeið og við þann gröft hafi myndast um 15 m langur skúti inn undir
bergið. Upphaf málsins hafi verið það að árið 1915 fann Ólafur bóndi
Árnason á Gili allþykk lög af surtarbrandi austan við Gilsá. Þar hafi
verið grafin námugöng, 3 m breið og 10 m löng, innundir bergið og
HOLLUR ER HEIMAFENGINN BAGGI 69