Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 73
Botnsnáma í Súgandafirði
Á Botni í Súgandafirði hafði Kristján Torfason, kaupmaður á Flateyri,
fengið leyfi til að vinna surtarbrand og hóf verkið fjórum vikum áður en
Guðmundur Bárðarson fór í rannsóknarleiðangur sinn.
Náman er beint upp af bænum Botni, neðan við háan foss um það
bil 140 m yfir sjávarmáli. Náman er neðst í klettabelti sem girðir
Hafradalinn að neðan. Rétt fyrir framan námuna er Hafradalslækur.70
Surtabrandslögunum hallar inn undir bergið en hallinn minnkar eftir því
sem innar dregur. Náman var, þegar Guðmundur rannsakaði hana, 28
fermetrar og var eftirtekjan á fermetra 3/4 úr tonni. Guðmundur sagði
brandinn dekkri og kolalegri en í Gili, en hann molnaði þegar hann kæmi
út undir bert loft. Lagið væri 62-75 cm á þykkt. Þrenn göng höfðu verið
grafin og voru hver um sig 2 m á breidd en stöplar, 1,5 til 2 m á kant,
skildir eftir. Kolalagið fylgdi námugólfinu en leirsteinninn, sem lá ofan á,
var sprengdur burtu upp að basaltlaginu þar fyrir ofan til að gera námuna
manngenga og var það notað sem þak. Verkstjóri var, þegar Guðmundur
Bárðarson fór þar um, Guðmundur Steinn Emilsson stud. art., síðar
skólastjóri í Bolungarvík, en hann hafði unnið við silfurnámur í Noregi.
Í námunni unnu um þetta leyti fimm menn og tveir unglingar.
Meðal þeirra voru bræðurnir Sigurður og Bolli Thoroddsen, synir Skúla
alþingismanns, og þrír strákar úr nágrenninu á svipuðu reki sem Sigurður
nefnir aðeins með gælunafni. Gummi, Gulli Hólm og Steinn. Sigurður
segir hins vegar að verkstjóri hafi verið Guðmundur Kristjánsson
búfræðingur úr Dýrafirði. Hann hafi verið sérvitur í meira lagi og
sparsamur, notaði tólg út í kaffið og vildi ekki sjóða fiskinn og kartöfl-
urnar, sem hann borðaði, í meira en fimm mínútur.71
Tvær vikur hafi tekið að ryðja frá námunni og sprengja skurð svo
vatnshalli fengist úr námunni því að surtarbrandslögin vísuðu niður á við.
Á þeim tveim vikum sem eiginleg vinnsla hafi staðið náðust upp 20 tonn.
Unnið var 10 tíma á dag og 6 kg af sprengiefni höfðu verið notuð og
hjálpaði það mjög við verkið. Sigurður fullyrðir að það hafi verið hrein
guðsmildi að ekki varð stórslys við sprengingarnar, því að þegar ekki
sprakk í holu lét verkstjórinn bora hvellhettuna út með sveifbor.
Vinnslan fór þannig fram að fyrst var leirlagið losað burt, eins og áður
sagði. Sigurður segir að það hafi verið sprengt, leirinn síðan hreinsaður
burt og að því búnu voru surtarbrandslögin sprengd, um 80 cm í einu.
Brandurinn var síðan fleygaður upp og ekið út á hjólbörum. Þar hreinsaði
Bolli brandinn. Að því búnu var hann settur á hest og fluttur niður að
sjó, um 50 kg í einu. Guðmundur Bárðarson taldi mögulegt að leggja
72 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS