Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 91
færa meint aflöguð bæjaheiti til upprunalegs horfs, m.ö.o. var mál hreins-
unarstefna þar lögð til grundvallar. Guðmundur lagði hart að Hannesi að
hann tæki verkið að sér, enda var hann sjálfur heilsuveill. Hannes féllst
loks á það, með semingi þó, enda ætlaði hann sér ekki að hlaupa í kapp
við aðra menn sem jafnfærir voru eða jafnvel betur til starfans fallnir,
eftir því sem hann sjálfur segir.23 Virðist hann því búinn undir aðfinnslur
Finns, enda ekki langt um liðið frá því að ritgerð hans birtist.
Þeir Guðmundur og Hannes lögðu mikla vinnu í verkið sem hófst
sumarið 1920. Guðmundur var þá sjúklingur á Landakotsspítala en
Hannes fór reglulega til fundar við hann. Að sögn Hannesar var áhugi
hans á rannsókninni svo einlægur og lifandi að hann tók að hressast við
hvern fund þeirra og var nær albata þegar handritið var loks frágengið.
Gamanið tók hinsvegar að kárna þegar Fasteignabókin kom loks út.
Sumum bæjanöfnum hafði verið breytt til samræmis við tillögur þeirra
en alls ekki öllum. Hvergi voru birtar skýringar eða röksemdafærslur
að baki breytingunum og þess ekki getið að þeir hefðu unnið mikla
rannsóknarvinnu fyrir útgáfuna. Þetta var mikið áfall og Guðmundur
lagðist banaleguna skömmu eftir að Fasteignabókin var fullprentuð.
Hannes var ekki reiðubúinn að láta málið niður falla heldur ritaði grein
um rannsóknirnar og fékk hana birta í Árbók fornleifafélagsins. Greinin
er byggð upp á nokkuð ólíkan hátt en ritsmíð Finns þótt umfjöllunarefni
séu um margt lík. Finnur raðar bæjunum upp eftir hreppum og skipa
örnefnaskýringarnar sjálfar stærstan sess, enda var það upphaflegt markmið
rannsóknarinnar að færa afbökuð bæjanöfn til betri vegar. Hér verður
ekki farið nákvæmlega í einstök atriði í ritgerð Hannesar, enda fjallaði
hann um mörg bæjanöfn sem Finnur hafði áður tekið til athugunar og
komst oftar en ekki að svipuðum niðurstöðum og hann.
Finnur sá ástæðu til að gera athugasemd við þetta og ritaði grein í
Árbókina árið eftir. Þar gagnrýndi hann Hannes fyrir að birta kenningar,
afar líkar sínum án þess þó að vitna í sig. Einnig setti hann út á ýmislegt
misræmi í tillögum hans, t.d. að hann vilji leiðrétta myndir eins og
Skaptholt og Skálholt og segja Skaptaholt og Skálaholt en hins vegar leyfa
orðmyndum eins og Reykjavík og Einholti að standa óbreyttum þrátt
fyrir að þar hafi orðið sambærilegar úrfellingar. Þegar um slíkt var að
ræða aðhylltist Finnur sjálfur að sú ein myndin væri rétt sem höfð væri í
hverri sveit. Síðast en ekki síst atyrti hann Hannes fyrir málfræðibrest og
taldi hann ekki nógu vel að sér í málfræðireglum til að vera færan um að
fjalla um örnefnaskýringar. 24
Hannes svaraði um hæl í sömu Árbók og fór mikinn. Gagnrýni hans
90 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS