Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 103
102 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Skotlandi, Íslandi og Englandi. Verkefnið hefur notið styrkja frá ýmsum
aðilum, þar á meðal Rannís, Bandarísku vísindastofnuninni (National
Science Foundation, NSF) og Norður landaráði (svonefndir NOS-H
styrkir). Þessir styrkir hafa gert það kleift að halda úti rannsóknarverkefni
með mörgum starfsmönnum á hverju ári og einnig hefur verið rekinn
þar skóli fyrir stúdenta í íslenskri fornleifafræði. Uppgröfturinn varð
viðameiri með árunum. Litlir könnunarskurðir voru gerðir 1995 og
2002 var búið að taka ofan af öllum víkingaaldarrústunum. Bæði var
stóra rústin, sem fyrst var rannsökuð 1908, opnuð og einnig fundust rústir
fjögurra húsa sem ekki hafði verið vitað um.
Í þessari grein er í fyrsta skipti gefið stutt heildaryfirlit um þær
fornleifarannsóknir sem fram fóru á Hofstöðum milli 1992 og 2002.
Hér verður aðeins fjallað um byggingar en ekki fundna gripi. Nokkrar
greinar hafa áður birst um tiltekin afmörkuð viðfangsefni en þær voru
allar skrifaðar meðan rannsóknin stóð enn yfir.3 Enn er verið að vinna að
úrvinnslu og greiningu ýmissa gagna. Því verður að líta á þetta yfirlit sem
bráðabirgðafrásögn. Ýmis smáatriði og ýmislegt í túlkun minjanna kann
að breytast áður en lokið er við að fara yfir gögnin. Í undirbúningi er að
gefa út bók um uppgröftinn og verður að vísast til hennar um endanlegar
niðurstöður.
Minjastaðurinn
Bærinn Hofstaðir er í Mývatnssveit. Rústin forna er um 100 m austur
af íbúðarhúsi því er nú stendur en norðaustur af þeim stað þar sem
bærinn var á miðöldum. Á síðarnefnda staðnum eru einnig hafnar
fornleifarannsóknir (á bænhúsi og kirkjugarði). Ekki er ljóst af hverju
bæjarstæðið var flutt og þangað til fram hafa farið frekari rannsóknir á
bæjarhólnum er ekki hægt að vita hvort hugsanlega var hlé á búsetu á
þessum stað eða hvort bærinn var bara fluttur til. Nýlegar kolefnis-
g reiningar úr bænhústóftinni benda til hins síðara. Stærð víkinga-
aldarbyggðarinnar, einkum skálans, er vissulega óvenjuleg og verið
getur að félagsleg eða pólitísk skipan í dalnum eða héraðinu kunni
að hafa tekið meiri háttar breytingum á 12. öld sem hafði áhrif á það
hvernig Hofstöðum vegnaði. Á bæjarstæðinu er langhús eða skáli, um 36
m langur (að innanmáli) með torfveggi sem standa í allt að eins metra
hæð. Í honum eru margar stoðarholur og stoðarsteinar sem sýna hvar
timburgrindin sem bar uppi bygginguna hefur verið. Skálanum hefur
verið skipt í nokkur herbergi. Í honum eru tvö eldstæði nærri miðju
og nálægt báðum endum er gangur um þveran skála. Gólfið hafði sums