Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 120
BJARNI F. EINARSSON
EKKI ER ALLT SEM SÝNIST
Párað, krotað og rist til forna
Inngangur
Allt frá því að manneskjan tók upp á að reyna að temja náttúruna og
ná valdi yfir henni með menninguna að vopni fór hún einnig að pára,
krota eða rissa línur og form á t.d. kletta- og hellisveggi eða á lausa gripi
úr beini, steini, tré o. fl. Inntaki pársins var annaðhvort beint til allra eða
fárra útvaldra, jafnvel aðeins þess sem risti. Kannski átti enginn að skilja
myndverkið nema andarnir einir, og áttu þá að stuðla að því að óskir
rættust. Það gátu verið óskir um að ná tökum á hinu óþekkta eða hafa
áhrif á atburði. Stundum voru rissaðar upp myndir af auðþekkjanlegum
hlutum eða dýrum, en myndefnið gat einnig verið óhlutrænt mynstur með
tilvísun í náttúruna, svo sem haf og himinn, eða hreinræktað geó metrískt
mynstur. Erfitt gat verið að túlka slík mynstur, og er enn, og álita mál hvort
túlkun eða eiginlegur skilningur hafi verið nauðsynlegur yfirleitt, vegna
þess að mynstrin gátu haft tilgang í sjálfu sér, sem ekki var nauðsynlegt
að skilgreina frekar. Mynstrin voru hluti af tjáningarformi samfélagsins og
um þau giltu ákveðnar reglur. Þannig má segja að reynt hafi verið að auka
gildi og kraft þeirra hversdagslegu hluta sem krotað var á.
Ákveðin form eða myndir má finna hjá mjög ólíkum samfélögum
frá ýmsum tímum víðsvegar í heiminum. Myndir af lófum má sjá á
bergristum frá bronsöld í Norður-Skandinavíu og á máluðum hella-
og bergmyndum hjá frumbyggjum Ástralíu í þúsundir ára. Einnig má
nefna „sikk-sakk“-mynstur, fiskibeinamynstur, sem sést m.a. á leirkerum
steinaldarmanna í Evrópu, tágakörfum frumbyggja Ameríku og hringum
sem eru stimplaðir, höggnir, málaðir eða skornir af ýmsum þjóðflokkum
víðsvegar um veröldina.
Í þessari grein er ætlunin að fjalla um rissmyndir og annað krot, sem
stundum finnst á stöðum sem lítið ber á, svo sem á óaðgengilegum
stöðum á forsögulegum mannvirkjum og einnig á gripum. Ekki er um