Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Side 145
Lokaorð og niðurstaða
Frá örófi alda hafa menn dregið upp myndir, tákn eða texta á allskyns
hluti eða gripi, lausa og fasta. Til er aragrúi hversdagslegra gripa með
myndbrotum eða rúnum, sem eru meira eða minna óskiljanlegar okkur
nútímamönnum. Sá efniviður, sem væntanlega hefur verið mest krotað í,
bein, leður og tré, hefur því miður ekki varðveist fram á þennan dag, en
ganga má út frá því sem vísu að fjöldi slíkra gripa hafi verið gífurlegur
á sínum tíma. Þar sem varðveisluskilyrði viðar eru góð, má iðulega sjá
fjölda útskorinna gripa með allskyns kroti. Dæmi um slíka staði eru elstu
verslunarstaðir frá víkingaöld, svo sem Ladoga skammt frá St. Pétursborg,
Sigtún í Mið-Svíþjóð, Jórvík á Englandi, Dýflin á Írlandi og Heiðabær í
Norður-Þýskalandi. Einnig má nefna Ásubergshauginn í Noregi, þar sem
afar mikið varðveittist af gripum gerðum úr tré og frá Grænlandi (t.d.
„Bærinn undir sandinum“) hefur varðveist fjöldi gripa úr tré og beini
með alls kyns skreyti og kroti. Á Íslandi er einna helst að nefna Viðey,
Kvosina í Reykjavík, Kúabót í Álftaveri og Stóruborg undir Eyjafjöllum,
þó að þessir staðir komist ekki í hálfkvisti við þá erlendu, enda hluti af
öðruvísi samfélagi.
Á Norðurlandi hefur merkasti útskurður landsins varðveist, frá Flata-
tungu og Möðrufelli, auk margra merkra gripa frá seinni öldum. Kannski
bíður okkar þar staður sem verður jafn gjöfull á þessi hverfulu efni og
hinir erlendu staðir, sem taldir eru upp hér að ofan. Ég nefni Gásir,
Þingeyrar, Reynistað og fleiri staði sem margir komu á um lengri eða
skemmri tíma. Kannski geyma biskupstólarnir og klaustrin, sem nú er
verið að rannsaka, eitthvað álíka. Bær í Öræfum kann einnig að geyma
ýmislegt forvitnilegt.
Þörf manna fyrir að draga upp tákn, myndir eða letur á stöðum sem
stundum áttu að sjást og stundum ekki, er greinilega rík í mannlegu eðli
og hefur verið það í aldanna rás. Allt virðist breytast ógnarhratt í þessum
heimi, en hið mannlega eðli heldur sínu striki.
Tilvitnanir og athugasemdir
1 „... images which appear to have been created outside of the constraints of formal art, as
the casual art of the common man.“ (Bon, 1995:172).
2 Uaininn O'Meadhra hefur fjallað um þetta. Hún skiptir krotinu niður í þrjá hluta; free
sketches, designers sketches og motif-pieces. Sameiginlega kallar hún þetta sketching
tradition (O'Meadhra 1993:423). Í grein hennar er ýtarlegt yfirlit yfir rannsóknir á
kroti (sketching tradition) frá N-Atlantshafssvæðinu.
3 Árni Hjartarsson m. fl. 1991.
144 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS