Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 155
einkennandi mynstur í staðsetningu kumla, hæð þeirra yfir sjávarmáli,
haugfé o.s.frv. eftir kynjum, væri hægt að færa einhver ógreinanleg kuml í
réttan flokk og það myndi auka skilning okkar á fortíðinni.
Kyn og greftrunarstaður
Ef skoðaðar eru saman upplýsingar um kyn haugbúa og staðsetningu
kumla er hægt að lesa meira úr efniviðnum. Þannig er hægt að skoða
dreifingu kumla eftir kynferði og bera síðan niðurstöðurnar saman við
ókyngreind kuml um land allt og meta þannig mynstur í dreifingu kumla
hvors kyns fyrir sig eftir landshlutum. Á 1. mynd má sjá að kumlunum
má skipta í þrjár meginþyrpingar. Á Norðurlandi hafa fundist 84 kuml,
á Austurlandi 37 kuml og Suðurlandi 62 kuml. Til að átta sig betur á því
hvað þetta þýðir þarf að skoða þessar þyrpingar nánar. Helstu ástæður
kumlfunda hafa verið taldar fólksfjölgun, vegagerð eða uppblástur5, en
síðustu ár hefur verið reynt að þróa kerfisbundnari rannsóknaraðferðir.
Óvíst er að þau kuml sem nú eru þekkt séu til viljanakennt eða dæmigert
úrtak forkristinna grafa. Bjarni F. Einarsson6 hefur fjallað um þetta og telur
að það hljóti að vera kleift að finna eitthvert mynstur, þótt það hafi ekki
tekist enn. Þetta verður allt að hafa í huga. Ekki verður þó sérstaklega
reynt hér að skýra af hverju grafir finnast í afmörkuðum þyrpingum, þó
að það sé út af fyrir sig áhugavert. Ekki verður heldur reynt að sýna fram
á að það úrtak kumla sem við þekkjum sé tilviljanakennt, enda er svo
greinilega ekki. Hér verður litið á öll kuml sem fundist hafa og verið
greind fram að þessu, enda eru það einu upplýsingarnar sem við höfum
til að vinna úr. Þó að þetta takmarki verkið á ýmsan hátt, má þó álykta
sitthvað af þeim efnivið sem fyrir liggur.
Þegar þessar þyrpingar eru skoðaðar er greinilegt á kortinu að munur
er á því hve hægt hefur verið að greina marga einstaklinga til kyns. Í
hópnum á Austurlandi eru fæstar ókyngreindar grafir og er mjög líklegt
að það sé vísbending um betri varðveislu á því svæði. Ef hins vegar er litið
á hlutfall ókyngreindra grafa á svæðunum þremur hefur það forvitnileg
áhrif á niðurstöðurnar. Þegar litið er á hópinn á Suðurlandi virðist fjöldi
kyngreindra karl- og kvenkumla vera svipaður (25% annars vegar og 19%
hins vegar) og ætla mætti að ókyngreindu grafirnar myndu skiptast svipað.
Hins vegar er mun hærra hlutfall karlkumla bæði á Norðurlandi (46%
karlar, 15% konur) og Austurlandi (50% karlar, 19% konur) og á báðum
stöðum færri ókyngreindar grafir. Það sýnir sig að fjöldi hvors kyns fyrir
sig vex ekki endilega jafnt þegar hægt er að kyngreina fleiri beinagrindur.
Bæði í hópnum á Norðurlandi og Austurlandi má sjá hærra hlutfall karla
154 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS