Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 161
á bænum. Síðasti aldurshópurinn er 46 ára og eldri og þá fer konunum
aftur að fækka. Það þarf að athuga nánar þar eð almennt lifa konur
nokkru lengur og sýnir það sig venjulega við rannsóknir á grafreitum. Því
hljótum við að spyrja hvaða félagslegi munur hafi verið á þeim tíma sem
hér um ræðir sem veldur því að konur eru ekki sýnilegar.
Niðurstöður
Mjög mikilvægt er að hafa í huga að kyngervi er óhlutbundið rann-
sóknarhugtak og hefur verið túlkað á marga mismunandi vegu, og er enn.
Nelson hefur orðað þetta þannig að þótt til séu margar mismunandi, en
þó áþekkar, kenningar um það hvernig rannsaka eigi kyngervi, megi líta
á kyngervishugmyndina sem prismagler sem margir ljósgeislar brotna í.13
Það getur að sjálfsögðu valdið því að sýn fornleifafræðinga verður skekkt
eftir því hvors kyns þeir eru og hvor hópurinn um sig beinir athyglinni að
því sem styður eigið sjónarmið. Samt sem áður er það skylda fræðimanna
að taka með eins miklar upplýsingar eins og hægt er til að skilja alla þætti
þess samfélags sem verið er að rannsaka.
Í gröfum má búast við að kyn og kyngervi endurspeglist í forn-
leifunum, í þeim fjölmörgu upplýsingum sem þar eru fólgnar. Mismunur
á staðsetningu kumla og búnaði, hvernig líkamanum er komið fyrir,
haug fé, fatnaði, matargjöfum, verkfærum o.s.frv., allt veitir þetta innsýn
í greftrunarsiði sem um hönd voru hafðir við útfarir fólks sem var mis-
jafn lega auðugt, mishátt sett í þjóðfélaginu og taldist til mismunandi kyn-
gervis.14
Nokkrar skýringar á ójöfnum fjölda kynjanna koma til greina. Til
dæmis gæti munurinn endurspeglað muninn sem Landnámabók bendir
til, hlutfallið sem er nærri 6 karlar á móti 1 konu,15 þó að hlutfallið í
kumlunum sé miklu nær lagi. Þetta er ekki mjög líklegt en þó er rétt
að hafa það í huga. Aðrar skýringar á þessu misræmi gætu verið tilviljun,
skekkja í úrvali, ójöfn dreifing ókyngreindra grafa eða almennt léleg
varð veisla beina sem magnar upp innbyggða skekkju sem þekkist við
kyngreiningu mannabeina og veldur því að karlar virðast fleiri.
Ef efnið er skoðað með kyngervi í huga mætti setja fram nokkrar
tilgátur í viðbót. (1) Þjóðfélagsstaða kvenna hefur ekki verið hin sama í
öllum landshlutum, af sögulegum ástæðum eða mismunandi uppruna
(t.d. tignar norrænar konur, sannar fornsagnakonur, hafa flutt í ríkara
mæli til búsældarlegra héraða á Suður- og Suðvesturlandi). Þess vegna er
skiptingin jafnari á Suðurlandi. Þetta þýddi auðvitað að konurnar fyrir
norðan væru af lægri stigum (kannski keltneskar eða af einhverjum öðrum
160 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS