Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Page 181
180 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
túnjaðarinn hefur líklega 1-2 m þykkt jarðvegslag horfið af svæðinu.
Í frásögn Arngríms segir að kumlið sé um 200 faðma í austur frá
bænum. Eflaust er þetta áætlun fremur en nákvæm mæling. Almennt
hefur faðmur verið um 3 álnir að lengd, eða 167,20 cm, en einnig var
til íslenskur faðmur, eða svonefndur málfaðmur, ætíð tilgreindur sem 3
½ alin, eða 195,07 cm.8 200 faðmar eru 334 metrar ef gert er ráð fyrir
að faðmurinn sé 167,20 cm en 390 metrar sé faðmurinn 195,07 cm og
munar þar um 28 metrum.
Bærinn sem Arngrímur miðaði mælingu sína við er horfinn en mun
hafa staðið skammt austan við núverandi íbúðarhús Baldursheims I.
Sigurður Þórólfsson lét mæla fjarlægðina frá ætluðum bæjardyrum gamla
bæjarins austur að rofabarði og reyndist hún vera 308 m. Frá rofabarði að
girðingu voru 26 m. Ætla má að nokkuð ör uppblástur hafi verið á síðari
hluta 19. aldar ef bæði mannskumlið og hestkumlið til fóta hans komu í
ljós á tveimur árum, eins og frásögnin af fundunum virðist benda til, hefur
holtið blásið frá austri til vesturs. Uppblásturinn hefur hugsanlega verið
allt að 1-2 m á ári. Sigurður Þórólfsson sem fylgdist með rofabörðunum í
60 ár telur hins vegar að uppblásturinn geti alls ekki hafa verið svo mikill.
11. mynd. Baldursheimur. Horft til suðausturs frá túni, yfir uppblásinn mel.
Rofabarð liggur skáhallt yfir myndina á mörkum mels og túns. Örin sýnir hvar
líklegt er að kumlið hafi verið, sunnan við Grænavatnsgötur, sem voru í láginni
fyrir framan hana. Bláfjall er í baksýn.