Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 185
utanverðu í veggjum voru hleðslur úr vatnssorfnu grágrýti. Varðveitt voru
1-3 umför steina og þeir voru flestir fremur litlir. Fordyri þetta virðist reist
upp að skálanum, það er að segja það lítur út fyrir að vera byggt á eftir
honum. Það er þó líklegt að það hafi gerst mjög fljótt eftir að skálinn
var reistur, enda er efniviður og veggjagerð samskonar. Í nokkrum hluta
fordyris var einhvers konar gólflag, grátt að lit, lítillega kolaborið en ekki
harðtroðið. Greinileg skil voru 1,5 metra frá útbrún skálaveggjar. Þar mátti
sjá einfalda steinaröð sem líklegt er að rétt sé að túlka sem ummerki um
þilvegg eða einhverja milligerð í fordyrinu.
Á þessum stað hefur orðið mikið rask við ýmsar framkvæmdir á síðari
tímum, eins og við er að búast í miðbæ Reykjavíkur. Undir Aðalstræti
vestanverðu er niðurgröftur fyrir skólplögn og vatnslögn. Sá skurður
er um það bil 3 metrum austar en austurveggur skála og var 1,4 metra
breiður. Hann var grafinn niður í malarkambinn sem er undir mið-
bænum í Reykjavík og hefur því skorið í gegnum allar mann vistarminjar.
Hliðveggir fordyris náðu að skurði þessum að vestanverðu og hefur hann
greinilega skaddað það eitthvað. Hliðveggir fordyrisins sveigja nokkuð rétt
við skurðinn og óvíst að það hafi verið nema lítils háttar af veggjunum
sem skaddast hefur við skurðgröftinn. Ekki þarf að fjölyrða um til hvers
slíkt fordyri hefði verið. Það hefur án efa verið til hlýinda og einangrunar
og til að koma í veg fyrir dragsúg.
Ekki er það dæmalaust að finna fordyri við skála á Íslandi. Við skála-
rústina miklu á Hofstöðum í Mývatnssveit eru ummerki um viðbyggingu
sem gæti hafa verið fordyri. Það er þó töluvert skaddað og virðist hafa
verið u.þ.b. 5 x 1,5 m. Veggir þess voru greinilega beinir.3 Á skála-
byggingu sem rannsökuð var á Hrafnseyri við Arnarfjörð eru merki um
að veggstúfar tveir hafi gengið út frá langvegg beggja vegna dyraops, líkt
því að þar hafi verið lítið fordyri, þá um 2 x 2,4 m að stærð, sem gengið
var inn í fyrst, áður en gengið var inn í aðalbygginguna.4
Ekki er útilokað að fordyri hafi verið við einhverja af þeim skálum
sem upp hafa verið grafnir hérlendis, þó að okkur skorti upplýsingar þar
um. Í sumum tilvikum eru byggingarnar ekki nógu vel varðveittar til að
um það verði fullyrt og í öðrum tilvikum hefur ekki verið grafið nógu
mikið frá veggjum að utan til að hægt sé að fullyrða að þar hafi ekki verið
fordyri. Slíkar viðbyggingar eru heldur ekki óþekktar erlendis og má t.d.
geta þess að lítil fordyri virðast hafa verið á víkingaaldarhúsum í Fyrkat
og Trelleborg í Danmörku.5
Engir gripir fundust í viðbyggingunni. Þegar litið er til þess hve fáir
gripir fundust í skálanum sjálfum er það ekki sérstakt undrunarefni.
184 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS