Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Síða 191
þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir 1980, þá sem fyrsti safnvörður
og yfirmaður þjóðmenningardeildar safnsins.
Dr. Marta Hoffmann var – og er – alþjóðlega þekktur vísindamaður
á sviði textílsögulegra rannsókna. Hefur hún ritað merkar bækur og
greinar um þau efni og hlotið viðurkenningar fyrir störf sín. Í prentaðri
ritaskrá hennar sem nær frá 1934 til 1984 eru talin 126 rit, lengri og
styttri.3 Mörg rita Mörtu Hoffmann eru fyrir löngu orðin undir stöðurit í
norskri, norrænni og alþjóðlegri textíl- og textíláhaldasögu. Nægir þar að
benda á doktorsrit hennar, The Warp-Weighted Loom,4 sem hún varði við
Oslóarháskóla 1964, en það varð fljótlega, og hefur verið allar götur síðan,
undirstöðurit þeirra sem fást við rannsóknir á vefnaði fyrri alda, sér í lagi
á vefnaði í vefstað (kljásteinavefstað). Hefur bókin komið út í alls þremur
útgáfum.5 Er í riti þessu meðal annars ítarleg greinargerð um íslenska
vefstaðinn og vefnað í honum, sem byggð er á íslenskum ritheimildum
og vefnaðartilraunum. Ein ritgerð Mörtu Hoffmann, „Der isländishe
Gewichtwebstuhl in neuer Deutung“ sem birtist í afmælisriti til svissnesks
vísindamanns 1965,6 fjallaði sérstaklega um íslenska vefstaðinn, einkenni
hans og mismuninn á honum og öðrum þekktum kljásteinavefstöðum, en
heimildir um íslenska vefstaðinn höfðu áður verið talsvert misskildar og/
eða rangtúlkaðar í ritum erlendra fræði manna. Urðu rannsóknir Mörtu
Hoffmann á íslenska vefstaðnum meðal annars til þess að gerð var tilraun
með vefnað á vaðmáli í vefstað í Þjóðminjasafni Íslands sumarið 1963, og
hefur sú tilraun síðar örvað til frekari rannsókna hér á landi á þessu sviði.7
Eftir starfslok 1980 fékkst Marta Hoffmann áfram við rannsóknir og
ritstörf. Má sem dæmi nefna grein um prjón í Noregi á sautjándu öld.8
Af seinni rannsóknarskrifum Mörtu Hoffmann ber þó sennilega hæst bók
hennar Fra fiber til tøy, yfirlitsrit um hefðbundin textíláhöld í Noregi og
notkun þeirra, sem út kom 1991.9
Til Íslands kom Marta að minnsta kosti fjórum sinnum, fyrst 1962 og
aftur 1963, þegar unnið var að uppsetningu vefstaðar og ofið í honum
vaðmál í Þjóðminjasafni Íslands eins og áður er að vikið. En síðast kom
hún 1996 í boði Norræna hússins, þar sem hún flutti erindi á vegum þess
og Heimilisiðnaðarskólans 28. apríl. Fjallaði erindið um skotrokka, elstu
gerð spunarokka; nefnist það „Skotrokkar í Evrópu og uppruni þeirra í
Austurlöndum,“ og var byggt á nýjustu rannsóknum á þessu sviði.10
Marta hlaut ýmsa viðurkenningu á langri starfsævi. Vil ég sérstaklega
geta þess að árið 1983 hlaut hún verðlaun sænsku Konunglegu Gustav
Adolfs Akademíunnar í Uppsölum fyrir „undirstöðurannsóknir í sögu
textíltækni og fyrirmyndaraðferðir við rannsóknir í norskri lista- og
190 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS