Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2007, Blaðsíða 196
að einkakirkjurnar hafi verið reistar úr torfi, en hinar opinberu úr timbri
og með jarðgröfnum hornstólpum.
Einkakirkjurnar, ‚torfkirkjurnar‘ eru taldar byggðar eftir fyrirmynd
frá ‚keltneskum‘ kirkjum. Þessi gerð af kirkjum er talin hafa komið með
Íslendingum sem höfðu séð hana á ferðum sínum erlendis, og ef til vill að
einhverju leyti um Noreg. Hins vegar er ekki gefin skýring á því af hverju
‚torfkirkjurnar‘ gætu ekki verið tengdar skipulögðu trúboði frá svæðum
þar sem ‚keltnesk kristni‘ réði ríkjum. Er það vegna þess að hvergi er
minnst á slíkt trúboð í rituðum heimildum?
Torfhúsið, sem Steinunn gróf upp á Geirsstöðum í Hróarstungu, er
tekið sem dæmi um einkakirkju. Þessi uppgröftur þarfnast ítarlegrar
umræðu, þar eð alls ekki er öruggt að torfhúsið hafi í raun verið kirkja.
Steinunn minnist hins vegar ekki á þetta vafaatriði. Höfuðvandinn er sá
að engar vísbendingar fundust þar um neitt sem telja mætti kirkjulega
iðju. Ekki eru neinar vísbendingar um greftranir inni í húsinu eða utan
þess. Einu mannabeinaleifarnar voru þrjú brot sem fundust í gryfju undir
vegg hússins. Eitt af þessum brotum var tímasett með geislakolsaðferð til
tímans 890-1010. Uppgröfturinn benti til að bærinn á Geirsstöðum hefði
verið yfirgefinn um það bil öld fyrir Öræfajökulsgosið 1362. Steinunn
stingur upp á þeim möguleika að kirkjan hafi verið yfirgefin á sama tíma
og þeir sem þar voru grefnir hafi verið fluttir í annan kirkjugarð. Hún
styður þessa hugmynd með þekktu dæmi frá Stöng í Þjórsárdal. Á þessum
tveim stöðum er þó sá meginmunur að við rannsóknina á Stöng fundust
13 grafir með leifum af líkkistum úr tré og brot úr mannabeinum. Að
undanskilinni gryfjunni sem hlýtur að vera eldri en húsið/byggingin,
virðast engar grafir hafa fundist á Geirsstöðum.
Annar alvarlegur vandi felst í því að fleira en eitt byggingarskeið
kunna að vera í húsinu á Geirsstöðum og vera má að þar séu í raun
tvö mismunandi hús. (Howell Roberts, munnlegar upplýsingar). Þetta
er greinilegt ef teikningar í útgefinni uppgraftarskýrslu Steinunnar eru
skoðaðar. Rétt hefði verið að geta þess möguleika í bókinni að hægt sé að
túlka minjarnar á mismunandi vegu.
Í raun er því miklum vafa undirorpið að húsið á Geirsstöðum hafi
verið kirkja. Færa má rök fyrir því að það gæti væri fjós, enda er það að
nokkru niðurgrafið, sem er vel þekkt meðal slíkra húsa. Því er nokkuð
vandræðalegt að „endurgerð“ torfkirkja, sem byggir á Geirsstaðahúsinu,
hefur verið reist í nágrenninu.
Steinunn telur kirkjuna á Þórarinsstöðum dæmi um opinbera kirkju
(almenningskirkju?). Hún telur að kirkjan hafi verið byggð úr viði
RITDÓMUR 195