Dagblaðið Vísir - DV - 05.02.2010, Page 56
MICROSOFT RANNSAKAR RAFHLÖÐUENDINGU
Eftir fjölmargar kvartanir frá Windows-notendum sem hafa uppfært
í nýjasta stýrikerfi Microsoft, Windows 7, hefur fyrirtækið ákveðið að
rannsaka orsakir breyttrar rafhlöðuendingar í fjölmörgum far- og
fistölvum sem keyra nýja stýrikerfið. Kerfið birtir ítrekað viðvaranir
til notenda um að skipta um rafhlöðu því eitthvað sé að henni. Einn-
ig virðist ending rafhlaðanna vera mun verri og í sumum tilvikum
hafa þær orðið ónothæfar eftir fárra vikna notkun með Windows 7.
NEXUS ONE MEÐ
FJÖLSNERTISKJÁ
Google mun á næstunni gera
eigendum Nexus One-símans kleift
að uppfæra stýrikerfi símans til að
hann öðlist fjölsnerti-viðmót líkt og
iPhone-sími Apple. Þá er hægt með
ákveðnum handarhreyfingum
(pinch-and-zoom gestures) að kalla
fram ólíkar skipanir til dæmis í
netvafra símans. Talið var á tímabili
að Google-fyrirtækið myndi ekki
bæta þessu viðmóti við stýrikerfi
símans vegna einkaleyfis Apple á
tækninni en Google segir hins vegar
að Nexus One sé fyrsti Android-sím-
inn sem hafi nóg örgjörvaafl til að
keyra fjölsnerti-viðmótið.
VAFRASTRÍÐ
Google-vafrinn Chrome er á mikilli
siglingu þessa dagana. Á sínum
stutta ferli frá því vafrinn kom fram á
sjónarsviðið hefur hann náð 5,20
prósenta notendahlutdeild á
heimsvísu sem verður að teljast
einstakt á svo skömmum tíma í
þessum geira. Internet Explorer
heldur enn yfirburðastöðu þrátt fyrir
sígandi lukku en samtals eru útgáfur
vafrans með um 62 prósent
markaðarins. Firefox er síðan með
um fjórðung, eða 24,1 prósent.
SKORTIR EINFALD-
LEGA TÖFRANA
Jim Zemlin, framkvæmdastjóri Linux
Foundation, skrifaði á dögunum
ítarlega grein á bloggi sínu um kosti
og galla Linux-stýrikerfa. Greinin var
nokkurs konar hugleiðing eftir að
Apple-fyrirtækið kynnti hina nýju
iPad-tölvu. „Það stenst enginn Apple
snúning við að skapa einstaka
upplifun og notandaviðmót. Það er
eitthvað töfrum líkast við það. Við
gagnrýnum Microsoft aðra hverja
viku sem er auðvelt en Apple er
sannur samkeppnisaðili.“ Zemlin
viðurkennir síðan í áframhaldi að
Linux-kerfin skorti einfaldlega þessa
töfra.
UMSJÓN: PÁLL SVANSSON, palli@dv.is
Apple-fyrirtækið undir stjórn
Steve Jobs hefur á undanförnum
áratug sýnt og sannað að það hefur
til að bera meiri skilning en önn-
ur fyrirtæki á því hvað almenning-
ur vill. Vinsældir iTunes, iPod og
iPhone bera þess skýr merki.
Sú þróun sem átt hefur sér stað
síðastliðin ár með tilkomu ódýrra
fistölva (netbooks) og lestölva hef-
ur sjálfsagt gefið Apple þá hug-
mynd að hér væri að opnast mark-
aður fyrir nýja vöru sem sameinaði
eiginleika les- og nettölvu. Og iPad
er einmitt slík afurð.
Það er því ekki úr vegi að bera
saman í fljótu bragði eina vinsæl-
ustu lestölvu heimsins, Amazon
Kindle DX, við Apple iPad. Báðar
eru með 9,7 tommu skjá (24,63 cm)
og aðeins munar tíu dollurum í
verði á ódýrustu útgáfu iPad ($499)
og stærri útgáfu Kindle ($489).
Stærð og verð eru því nánast hin
sömu en eiginleikar og útlit eru
sem dagur og nótt í samanburði.
Amazon Kindle
Kindle DX lestölvan er með 16 tóna
gráskalaskjá, svokallaða E Ink-tækni
sem gerir upplifun notandans sem
líkasta því að hann sé að lesa raun-
verulega prentaða bók. Skjárinn
byggir ekki á baklýsingu og þreytir
því augun minna auk þess að halda
skýrleika sínum í mikilli birtu eins
og sólarljósi. Skjáinn má nota bæði í
lóðréttri og láréttri stöðu, það er sem
dæmi hentugra að skoða ljósmynd-
ir í láréttri stöðu. Notandinn fram-
kvæmir síðan allar skipanir með því
að ýta á hnappa sem staðsettir eru
undir skjánum og við hægri jaðar
hans.
Vefverslun og 3G
Kindle er nánast byggð utan um vef-
verslun framleiðanda síns og þrátt
fyrir að 3G-mótald sé innbyggt í
þessa lestölvu gagnast það notand-
anum nær eingöngu til að eiga við-
skipti við amazon.com. Notandinn
borgar ekki fyrir sambandið held-
ur verslunin sjálf en Amazon hefur
gert reikisamninga við fjarskiptafyr-
irtæki víðs vegar um heiminn til að
geta haldið uppi þessari þjónustu.
Í vefversluninni er boðið upp á um
fjögur hundruð þúsund bókatitla
auk áskrifta að dagblöðum og tíma-
ritum. Enn fremur er hægt að tengj-
ast bloggum og alfræðivefjum líkt og
Wikipedia.
Notkun og rými
Þrátt fyrir að Amazon gefi upp þann
eiginleika Kindle að geta hlustað á
hljóðbækur virðist það hreinlega
ekki vera raunhæf notkun á þess-
ari lestölvu. Hljóðbókinni þarf að
hala niður með hefðbundinni tölvu
og tengja síðan með USB-kapli við
Kindle til að geta fært hana inn á
tölvuna. Geymslurými Kindle er
ekki mikið, tæplega 4GB, og yrði
fljótt uppurið með myndarlegu safni
hljóðbóka. Hins vegar má vista um
3500 textabækur á Kindle og ef slökkt
er á 3G-mótaldinu dugir rafhlaða
tölvunnar í allt að tvær vikur. Not-
andinn getur einnig hlaðið inn eigin
texta- eða PDF-skjölum með aðstoð
USB-kapals.
Apple iPad
Eins og allt sem Apple hannar er
einfaldleikinn í fyrirrúmi þegar
kemur að iPad-tölvunni. Við fyrstu
sýn virkar útlit tölvunnar á mann
líkt og um risavaxinn iPhone sé að
ræða, stór svartur skjár með aðeins
einum hnappi fyrir neðan. Og sú
tilfinning er ekki fjarri sannleikan-
um, stýrikerfi iPad er byggt á kerfi
iPhone og getur keyrt sama hug-
búnað og síminn, leiki og forrit. Og
skjárinn er að sama skapi fjölsnerti-
skjár líkt og í iPhone, með mismun-
andi handarhreyfingum má kalla
fram ólíkar skipanir.
Innviðir og geta
Innviðir iPad eru þó meira í lík-
ingu við ferðatölvu, undir yfirborð-
inu leynast til dæmis 1GHz ör-
gjörvi, 16 GB Flash-minnisdiskur,
Wi-Fi (802.11a/b/g/n) og Blátönn.
Í raun getur iPad gert flest það sem
hefðbundin ferðatölva getur, vafr-
að um veraldarvefinn, spilað tón-
list og kvikmyndir, sótt og sent póst,
skiðað dagatal, póstfangaskrá og svo
framvegis. En iPad er einnig miðuð
að lestri bóka, hægt er að skipta yfir
í sérstakt lestrarviðmót og er tölvan
þá eins og hver önnur sérhæfð lestr-
artölva. Bækur, tónlist og kvikmynd-
ir má setja beint inn á tölvuna eða
hlaða þeim niður í gegnum iTunes-
verslunina. Apple er einnig að ljúka
sérstakan iWorks-forritapakka fyr-
ir iPad en þar má finna töflureikni,
kynningarforrit (presentation) og
ritvinnslu. palli@dv.is
56 FÖSTUDAGUR 5. febrúar 2010 HELGARBLAÐ
Apple kynnti nýverið iPad-tölvuna en það má segja að hún sameini alla kosti fis- og
lestölva og bjóði upp á útlit og hönnun sem almenningi er meira að skapi auk þess sem
verðið kemur skemmtilega á óvart. Hér er iPad borin saman við Amazon Kindle DX.
n Þykkt: 13,4 mm
n Þyngd: 680 grömm
n Skjár: 11,7 tommur, baklýstur LED
1024x768 fjölsnertiskjár með
háglans, varinn fyrir húðfitu.
n Örgjörvi: 1GHz Apple A4
n Geymslurými: 16 GB (einnig
fáanleg í 32GB og 64GB útgáfum)
n 3G: Nei, aðeins í dýrari útgáfu
($629)
n SIM-kort: Nei, aðeins í dýrari
útgáfu ($629)
n WI-FI: 802.11a/b/g/n
n Blátönn: Bluetooth 2.1 +
EDR-tækni
n Forritaverslun: App Store -
yfir 100 þúsund forrit
n Hljóðnemi: Já
n Hátalari: Já
n Tengi: 30-pinna kvíartengi (dock
connector), 3,5-mm heyrnartóla-
tengi, USB2 (í gegnum kvíartengi)
n Skynjarar: Hraða- og birtuskynjari
(ambient light sensor).
n Rafhlaða: Endist í 10 klukkutíma -
miðað við vefráp og afspilun á
kvikmyndum og tónlist.
Apple iPad
n Þykkt: 9,65 mm
n Þyngd: 535 grömm
n Skjár: 11,7 tommur, 16 tóna
1200x824 gráskalaskjár byggður á
E Ink-tækni.
n Örgjörvi: Ekki gefið upp
n Geymslurými: 4 GB (3,3
aðgengileg fyrir notandann)
n 3G: Já, en takmarkað gegnum
Whispernet-kerfi Amazon
n SIM-kort: Nei
n WI-FI: Nei
n Blátönn: Nei
n Forritaverslun: Nei
n Hljóðnemi: Nei
n Hátalari: Já
n Tengi: 3,5-mm heyrnartólatengi,
USB micro
n Skynjarar: Nei
n Rafhlaða: Endist í tvær vikur ef
slökkt er á 3G mótaldi.
Kindle DX
SAMA STÆRÐ OG VERÐ,
EN ÓLÍKIR EIGINLEIKAR