Dagblaðið Vísir - DV - 03.06.2011, Blaðsíða 54
54 | Sport 3.–5. júní 2011 Helgarblað
„Þú vinnur ekkert með krökkum,“
eru fræg orð Alans Hanson, fyrrver-
andi leikmanns Liverpool og núver-
andi sérfræðings BBC um fótbolta.
Þessi merku orð mælti hann fyrir
keppnistímabilið 1995/1996 þegar
Sir Alex Ferguson gerði sig líklegan
til að ráðast á úrvalsdeildina, vopn-
aður að stórum hluta ungum leik-
mönnum sem höfðu komið í gegn-
um ungl ingastarf félagsins og orðið
bikarmeistarar ungmenna árið 1992.
Þetta voru þeir David Beckham,
Nicky Butt, Neville-bræðurnir og
Paul Scholes. Auk auðvitað Ryans
Giggs en hann var þó búinn að spila
í nokkur ár. Það hefði eflaust eng-
an órað fyrir því að Giggs ætti eftir
að spila lengur en þeir allir en sú er
raunin. Á þriðjudaginn tilkynnti ein
mesta goðsögn í sögu Manchester
United, Paul Scholes, að nú væri nóg
komið. Hann er hættur knattspyrnu-
iðkun og kvaddi því með nítjánda
Englandsmeistaratitlinum. Er því að-
eins einn eftir af „krökkunum“ hans
Ferguson, ellismellurinn Ryan Giggs.
Vildi bara spila fótbolta
Paul Scholes hóf feril sinn með lát-
um en hann skoraði tvö mörk í sín-
um fyrsta leik með United, gegn Port
Vale í deildarbikarnum tímabilið
1994/1995. Leikirnir urðu alls 676 og
mörkin 150, mörg hver stórglæsileg.
Hann er fjórði leikjahæsti leikmað-
ur Manchester United frá upphafi,
á eftir Giggs, Bobby Charlton og Bill
Foulkes. Þá er hann tíundi marka-
hæsti leikmaðurinn í sögu liðsins.
Scholes hefur alla tíð forðast sviðs-
ljósið eins og heitan eldinn en not-
ið gífurlegrar virðingar, bæði innan
vallar og utan.
„Ég er ekki orðmargur maður,“
sagði Scholes við vef Manchest-
er United eftir að hann opinberaði
ákvörðun sína. Vægt til orða tekið
hjá hinum rauðbirkna. „Ég get svo
sannarlega sagt að fótbolti er það
eina sem mig hefur alltaf langað til
að starfa við og að hafa átt svona sig-
ursælan feril hjá Manchester United
er mér mikill heiður. Þetta var ekki
ákvörðun sem ég tók léttilega en mér
finnst það sé kominn tími á mig. Að
hjálpa liðinu að vinna sinn 19. meist-
aratitil voru mikil forréttindi,“ segir
Scholes sem heldur áfram störfum
hjá Manchester United og tekur að
sér þjálfarastöðu.
Þögull grínisti
Það verður seint sagt um Paul
Scholes að hann hafi gefið slúður-
blöðunum efni til að fylla síður sínar.
Hann hefur nánast alfarið haldið sig
fjarri sviðsljósinu og er flekklaus, eft-
ir því sem næst verður komist. „Paul
er ótrúlegur karakter. Hann elskar
fjölskylduna sína og vill alltaf vera
með henni. Hann skutlar börnunum
í skólann á hverjum morgni og sækir
þau eftir æfingu. Ég efa að hann hafi
misst úr dag nema þegar hann hefur
verið á ferðalögum með okkur,“ segir
liðsfélagi hans öll árin, Ryan Giggs,
sem sjálfur verður nú seint kallaður
faðir ársins.
Þó hann sé ekki mikið í viðtölum
sinnir hann pressunni nægilega vel.
Hann nýtur mikillar virðingar allra,
bæði innan vallar sem utan, og ekki
síst blaðamannanna í Manchester.
Mánuði áður en tímabilinu lauk var
Scholes með fjölmiðladag þar sem
hann gaf öllum stóru blöðunum með
útibú í Manchester hálftíma hverju
til að taka viðtal við sig. „Settist niður
í hálftíma með Scholes í dag. Yndis-
legur maður að tala við. Það er í lagi
að halda sig fjarri sviðsljósinu þegar
menn eru svona faglegir,“ sagði einn
blaðamaðurinn á Twitter eftir viðtal-
ið og annar bætti við: „Hálftími með
Scholes í dag. Algjör goðsögn á Old
Trafford. Svarar öllu hispurslaust og
ber jafnmikla virðingu fyrir manni
sjálfum og maður ber fyrir honum.
Magnaður karakter.“
Scholes hefur sig ekki mikið í
frammi í leikmannahópi Manchest-
er United en bak við tjöldin er hann
ekki alveg jafnhljóðlátur. „Hann
er alltaf eitthvað að fíflast. Hann
er svona týpan sem sparkar bolta í
hausinn á þér þegar þú ert ekki að
horfa. Mann grunar hann náttúru-
lega aldrei. Scholes er ekki allur þar
sem hann er séður. Hann segir ekki
mikið en þegar hann gerir það er það
oftar en ekki meinfyndið,“ segir Rio
Ferdinand um Paul Scholes.
Ótrúlegur leikmaður
„Hvað er hægt að segja meira um
Paul Scholes en ég hef sagt áður,“
segir Sir Alex Ferguson, maðurinn
sem gaf Scholes tækifærið á sínum
tíma og er eini stjórinn sem hann
hefur haft. „Við munum sakna gjör-
samlega ótrúlegs leikmanns. Paul
hefur alltaf verið tryggur United og
ég er hæstánægður með að hann
komi í þjálfaraliðið hjá okkur á næsta
tímabili. Hann hefur ávallt verið öðr-
um til fyrirmyndar,“ segir Ferguson.
Wayne Rooney var á þriðjudaginn
fyrstur til að lofa samherja sinn í út-
varpsþætti á talkSPORT. „Hans verð-
ur svo sannarlega sárt saknað. Við
vissum að hann var að velta þessu
fyrir sér en okkur datt ekki í hug að
niðurstaða fengist svona snemma.
Liðið mun sakna hans virkilega.
Hann er besti leikmaður sem ég hef
spilað með og á móti. Hver einn og
einasti United-aðdáandi mun sakna
hans,“ sagði Wayne Rooney um
Scholes.
Yndislegur maður
„Mér datt í hug að þetta myndi ger-
ast núna en mikið ofboðslega mun-
um við sakna hans,“ segir Bobby
Charlton, einhver mesta goðsögn í
sögu Manchester United og núver-
andi sendiherra liðsins. Charlton er
á meðal bestu miðjumanna í sögu
enskrar knattspyrnu en Sir Alex
Ferguson sagði í heimildamynd BBC
um kappann á dögunum að hann
væri besti knattspyrnumaður sög-
unnar, án nokkurs vafa. Charlton
hefur ávallt verið mikill aðdáandi
Scholes.
„Manchester United og enskur
fótbolti eru ekki bara að missa mikið.
Knattspyrnan er einfaldlega að missa
einn sinn albesta leikmann,“ seg-
ir Charlton. „Hann gerir allt svo fal-
lega og auðveldlega. Það hefur verið
algjör unun að horfa á hann. Það er
verst hvað hann hætti snemma að
spila með enska landsliðinu. En það
gerði hann vegna þess að hann elsk-
ar fjölskylduna sína svo mikið. Hann
vildi frekar vera áfram með henni en
að ferðast með landsliðinu. Hann
er frábær manneskja og við munum
halda áfram að hugsa vel um hann
hjá Manchester United.
England hefur saknað hans
Það var í ágúst 2004, eftir Evrópu-
keppnina í Portúgal, að Paul Scholes
hætti að leika með enska landslið-
inu, á hátindi ferils síns, aðeins þrí-
tugur. Hann var orðinn langþreytt-
ur á að spila úti á vinstri kanti svo
Sven-Göran Eriksson gæti haft Frank
Lampard og Steven Gerrard saman
inni á miðjunni, par sem hefur væg-
ast sagt ekki virkað hjá enska lands-
liðinu. Hann hætti því alfarið og sagði
feril sinn hjá Manchester United og
fjölskylduna mikilvægari en lands-
liðið. Síðan þá hefur verið mörgum
verið tíðrætt um hversu mikið enska
landsliðið vantar Scholes inn á mið-
svæðið til að byggja upp spil og róa
niður leikinn. Reyndi Fabio Capello,
landsliðsþjálfari Englands í dag,
mikið að fá Scholes til að taka fram
landsliðsskóna og spila með á HM í
fyrra. Það tók hann ekki í mál. Eng-
land átti eina sína allra verstu heims-
meistarakeppni og féll út í 16 liða úr-
slitum.
„Þrátt fyrir aldurinn er Scholes
virkilega góður á boltann, mjög fjöl-
hæfur og ótrúlega reyndur. Með
hann innanborðs hefði ég getað not-
að öðruvísi taktík sem hefði hjálpað
hinum leikmönnunum gríðarlega,
sérstaklega þegar þeir væru orðnir
þreyttir. Hann kemur með svo mikla
ró í leikinn. Án nokkurs vafa hefði
Scholes hjálpað okkur mikið,“ sagði
Fabio Capello við breska blaðið Daily
Mirror eftir að keppninni lauk.
Getur ekki tæklað
Það er enginn fullkominn þó
Scholes fari nú langt með það. Frá-
bær fótboltamaður, tryggur sínu fé-
lagi, hefur sig ekki í frammi, dyggur
fjölskyldufaðir og flekklaus þó aldrei
virðist mega afskrifa fíflalæti knatt-
spyrnumanna of snemma. Einn ljóð-
ur er þó á leik hans. Tæklingarnar.
Scholes er vinnusamur miðjumað-
ur og er góður í að vinna boltann af
andstæðingnum. En það eru vart til
verri tæklarar í ensku úrvalsdeild-
inni og þó víðar væri leitað. Hann
er duglegur að safna gulum spjöld-
um þess vegna og hafa nokkur rauð
einnig sést.
„Ég hef aldrei skilið þetta. Stund-
um held ég að hann sé bara að reyna
þetta. Það er ekki hægt að vera svona
góður í fótbolta og svona slakur tækl-
ari,“ sagði Ferguson eitt sinn skelli-
hlæjandi á galakvöldi ensku úrvals-
deildarinnar fyrir nokkrum árum þar
sem helstu goðsagnir deildarinn-
ar sátu fyrir svörum úr sal. „Mér er
samt alveg sama. Þau endalausu til-
boð sem okkur hafa borist í Scholes
í gegnum tíðina sem við höfum
aldrei greint frá eru ekki til komin
vegna tæklunarhæfileika hans. Það
er vegna þess að hann er einn besti
knattspyrnumaður í sögu Englands
og Englendingar eiga að vera stoltir
af því að hann hafi spilað fyrir lands-
lið sitt.“Lengi að Scholes hóf ferilinn 1994. MYndir rEutErs
…Og þá var eftir einn
n Paul scholes hættur eftir 17 ára feril
n Verður í þjálfarateymi Manchester
united á næsta tímabili n Munum
sakna ótrúlegs leikmanns, segir sir
Alex Ferguson n Giggs sá eini af
„krökkunum“ sem eftir er
Titlar
Enska úrvalsdeildin: 10 (1995–96, 1996–
97, 1998–99, 1999–2000, 2000–
01, 2002–03, 2006–07, 2007–
08, 2008–09, 2010–11)
Enski bikarinn: 3 (1995–96, 1998–
99, 2003–04)
Meistaradeildin: 2 (1998–99, 2007–08)
Deildarbikarinn: 2 (2008–09, 2009–10)
Heimsbikarinn: 2 (1999, 2008)
Samfélagsskjöldurinn: 5
(1996, 1997, 2003, 2008, 2010)
Landsleikir 66 (14 mörk)
feriLL SCHOLeS
Tómas Þór Þórðarson
blaðamaður skrifar tomas@dv.is
Magnaður miðjumaður Scholes verður sárt saknað úr boltanum.