Húnavaka - 01.05.2015, Blaðsíða 139
H Ú N A V A K A 137
160 heimilum á hinni löngu strönd.
Veðrið hefur yfirleitt verið gott og
það eigi lítil heppni.
Eitt sinn fékk ég þó hríð, fram á
Laxárdal, það var fyrsta ferð mín
um þennan dal. Klukkan var orðin
4, hríðin dimm og byrjað að húma.
Ég var að koma heim á næstfremsta
bæinn, Úlfagil heitir þar, afskekkt
handan við Laxá auk annars bæjar.
Ég sleppti klárnum í höm við
bæinn.
Ég lauk upp bænum og gekk
óboðinn inn í öllum gallanum, snjóugur. Gegnum
moldargöngin og inn í baðstofukytru, þar var
húsráðandi gömul kona 60 ára, sem þarna hefur
alið allan aldur sinn og verið þar 20 ár einsömul
með rollur sínar og hund. Ég hélt að hér hitti ég
sérvitra og ómannblendna konu en svo var ekki,
hún var glöð og kát, einveran bítur eigi á hana.
Hún heitir Sigríður, venjulega nefnd Sigga á
Úlfagili. Ég skrafaði við hana stutta stund og flýtti
mér svo af stað yfir Laxá sem var farin að bólgna
upp og fram að fremsta bænum Núpi, klárinn
minn skriplaði í hverju spori því hann var flatjárn-
aður. Á Núpi var ég svo um nóttina í góðu yfirlæti.
Ég er staddur nokkrum dögum síðar út á nyrstu bæjum, úti í Kálfshamarsvík.
Þar hefi ég boðað messu fyrir viku og sagt að ég komi nú til að skíra. Klukkan
3 hefst messa í skólahúsi, þar er orgellaust en hver einasti maður syngur og
söngurinn hljómar unaðslega í þessum óbrotnu húsakynnum.
Að messu lokinni fóru kirkjugestir ásamt mér í fyrstu skírnarveisluna, kl. 5,
þar eru tvö börn skírð, kl. 7 er önnur skírnarveisla á bæ ekki langt frá. Þangað
marserar allur hópurinn, tveir bera olíuluktir, hinir leiða kvenfólkið. Á þessum
bæ er eitt barn skírt, þar stendur veisla til kl. 10. Á þessu sérðu hvað fámennið
gerir fólk félagslynt, þegar því gefst tækifæri á annað borð.
Næsta dag skal ég halda heim á leið en verð að bíða fram til kvölds eftir
hreppstjóranum sem kemur til þess að semja verðlagsskrá með mér. Um 8
leytið höldum við svo af stað, tunglið veður í skýjum og lýsir okkur. Við ríðum
Króksbjarg, enginn bær sést, aðeins ljósviti norður á Ströndum deplar og í
fjarska, ca. 30 km, sjást rafmagnsljósin á Blönduósi, þau eru í þéttum hnapp,
líkust línuskipi alljósa með fimm þilförum.
Dagarnir hafa liðið, ég kominn heim og er að fara strax af stað aftur, svolítil
hríð er en rofar til á milli. Ég fer líka hægt því fyrir framan mig reiði ég lítinn
stokk, litla hvíta líkkistu. Hún á að fara utan um lítið barn sem aldrei sá dagsins
ljós, móðir sem átti barnið fyrir tímann. Þegar ég hef lokið erindi mínu fer ég
Úlfagil.
Sigga á Úlfagili.