Húnavaka - 01.05.2015, Blaðsíða 163
H Ú N A V A K A 161
ALDÍS EMBLA BJÖRNSDÓTTIR, Skagaströnd:
Einræðisherra
Skottast þú nú og sæktu hlýju sængina mína, því ég ætla að þykjast fara að sofa.
Pakkaðu mér þéttingsfast inn í þessa silkisæng svo ég svitni, því ef ég svitna hef
ég góða ástæðu til að vekja þig upp af þínum lausa svefni.
Ég finn svitann seitla niður vinstri vangann. Hann drýpur niður í vöggu
mína. Ég hljóða eftir hjálp og þú birtist á augabragði. Ég bið þig um volga
mjólk en þú ert svo klaufsk að þú sullar henni yfir þig. Ég gæti allt eins gert
þetta sjálfur. Þegar ég hef lokið við mjólkina og búinn að ropa mátt þú pakka
mér inn rétt eins og þú gerðir áðan.
Nú er ég útsofinn og þér ber að klæða mig og næra. Gefðu mér þetta gula.
Reyndu að vera rösk svona til tilbreytingar. Á meðan þú sóttir þetta gula
hugsaði ég mig betur um svo nú vil ég það rauða. Færðu mér það rauða. Þetta
rauða lyktar illa, ég hef aftur skipt um skoðun. Ég vil þetta gula. Mataðu mig,
þerna. Þurrkaðu mér um munninn, þerna. Ái! Ekki þurrka mér svona fast.
Nú vil ég fara að hitta jafningja mína. Færðu mér hlýja úlpu, húfu og
stígvél. Ég vil að þú komir mér fyrir í glæsikerrunni og spilir tónlist við hæfi.
Fínt, þú gast komið mér á meðal jafningja minna, nú skalt þú láta þig hverfa.
Farðu Sebastían, ég er að einbeita mér að þessari nákvæmnis teikningu af
glæsihýsi sem mun rísa við hlið tjarnarinnar. Farðu Sebastían, nú er ég að
einbeita mér að því að byggja glæsihýsið í smærri mynd. Ef þú hættir ekki að
ergja mig, herra Sebastían, þá ertu ekki velkomin n í veisluna sem verður
haldin mér til heiðurs á eftir.
En hentugt, vagnstjórinn er kominn til að koma mér í höllina. Settu mig
niður hér vagnstjóri, ég er hungraður. Færðu mér mat. Ég skal borða sjálfur,
ekki mata mig. Færðu mér servíettu, ég ætla að þurrka mér um munninn.
Færðu mig í hinn stólinn og réttu mér þetta bláa verkfæri, hirðfífl. Beygðu þig
nú og réttu mér þetta bláa aftur, því ég missti það.
Berðu mig í vagninn minn og ýttu mér með handafli niður að tjörninni. Ég
vil gefa fuglunum brauð. Ég finn vindinn blása í andlit mitt og honum fylgir
þreyta. Ég ætla að sofa á meðan þú ýtir mér um götur borgarinnar. Komdu
mér heim í höllina, teitið fer að hefjast. Klæddu mig í fallegu fötin sem þú
keyptir á mig og greiddu í gegnum hár mitt.
Velkomnir vinir, leggið gjafirnar á borðið þarna. Þerna, komdu með
tertuna. Sjálfur ætla ég að leiða sönginn en allir skulu taka undir.
Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag,
hann á afmæli hann Adolf, hann á afmæli í dag.
Hann er eins árs í dag, hann er eins árs í dag,
hann er eins árs hann Adolf, hann er eins árs í dag.