Húnavaka - 01.05.2015, Blaðsíða 147
H Ú N A V A K A 145
máttu sigla heim og segja móður sinni þessa harmafregn. Lífið er oft hart og
það þarf mikið þrek til þess að lifa og berjast hinni góðu baráttu. Við héldum
minningarathöfn um hinn drukknaða mann.
Hér eru sífelldar afmælisveislur, ég fer aldrei nema ég sé boðinn og skrifa
aldrei hjá mér þessi komandi afmæli, annars mætti ég vera í slíkum
heimsóknum eins oft og messuferðum. Eigi skortir menn hressinguna í þessum
fæðingarhátíðum, vínaldan mæðir hér á sem annars staðar.
Kveðja, Pétur Ingjaldsson.
Þó töfrar mig ennþá mánaskin á vetrarkveldi þegar jörðin
er silfruð í snænum
Í næsta bréfi fer sr. Pétur um víðan völl. Hann sálgreinir ráðskonurnar, ræðir um jarðarfarir,
hundinn sinn, síld á Siglufirði, einlífið og náttúruna sem enn töfrar hann. Fertugsafmælið
er á næsta ári og hann er enn ógiftur.
Höskuldsstöðum 3/11 1950.
Frændkona góð.
Ég hefi nýlega fengið bréf frá þér og þykir þér ég vera pennalatur, hvað er
sannleikur. Ég skrifast á við fáa þegar frá eru talin embættisbréf sem eru helst
um faðernismál eða hjúskap. En hvað um það,
líklega er það eigi svo fráleitt svona undir
fertugsafmælið að fara að rita bréf, þá einkum
kvenfólki, því þú ert nú eini kvenmaðurinn sem
ég hefi skrifast á við.
Hvað á ég að segja þér, hér er autt og kyrrt að
áliðnu kveldi. Kötturinn malar, Bjartur, sem
hafði verið týndur í 10 daga, er kominn heim
aftur, draghaltur, svo ég varð að bera á hann
spritt. Hundurinn liggur fyrir framan dyrnar,
orðið gamalt dýr, stór, gulur af skosku kyni,
sterkur og vitur. Ég þykist vera kominn að þeirri
niðurstöðu að ef þessar ráðskonur mínar eru
hugsunarsamar við húsdýr, reyni að skilja þau,
þá séu þær góðar manneskjur, málleysinginn
skilur það sem fram við hann kemur. En ef þær
eru hinsvegar illar við dýrin, svelta þau og hafa
að hornreku þá eru þær illa innrættar og uppskafningar. Þetta finnst þér
auðvitað léleg viska.
Nú undanfarið hafa verið mikil dauðsföll hér, það er haust og vor er tíð er
að skipta. Ég jarðaði þrennt á 10 dögum, var þar af 4 daga að jarða einn
mann. Þú heldur ef til vill það sé hér eins og í Þingeyjarsýslu að jarðarför gangi
ekki fyrir ræðuhöldum óbreyttra liðsmanna, ónei, hér talar enginn nema
presturinn.
Sr. Pétur og Polli.