Húnavaka - 01.05.2015, Blaðsíða 141
H Ú N A V A K A 139
Sr. Pétur er orðinn þrítugur, ennþá ókvæntur og hann strax farinn að hugsa til þess að
flytja sig um set og komast í prestakall fyrir sunnan.
Höskuldsstöðum 11/11 1942.
Kæra frændkona.
Ég hefi löngum ætlað að skrifa þér en það hefur farist fyrir enda hef ég oft
ætlað suður. Héðan er raunar fátt að frétta, tíðin stirð, kalt og fjúksamt. Ég hefi
verið í mesta fólkshraki því allt vill suður, kvenfólkið vill heldur vera í Reykjavík,
í ljósadýrðinni þar, en í skammdegishúminu hjá okkur sveitakörlunum. Þær
sækja nú misjafnt lán þangað, minnsta kosti þær sem verða „ástandsstúlkur“,
ein slík er dóttir bóndans hérna, hún átti Bretabarn nú í haust.
Ég myndi svo sem ekkert vera að hugsa um þennan fólksstraum ef ég hefði
ekki rekið mig óþægilega á að það er ekki gott að maðurinn sé einn saman eins
og Jahve sagði forðum við Adam. Ég hefi nefnilega verið kvenmannslaus,
ráðskonulaus á annan mánuð. Sú er var í sumar fór heim til bróður síns og
móður, annars var ég ekki á móti því hún færi, móður minni og henni kom
ekki vel saman. Ég fór svo að leita fyrir mér, reyndar heldur seint því heyannir
hömluðu öllum slíkum bónorðsferðum. Ég fór víða og fékk ekki neina, ég held
ég hafi ekki verið nógu þolinmóður við þær, mér er ekki sú list lagin að ganga
eftir fólki.
Eina slíka ferð fór ég út á Skaga, eins og frá Reykjavík austur í Ölfus,
nefnilega uppi í Skagaheiði er bær í mínu prestakalli. Þar hefur bóndi búið um
mörg ár, hafði býli þetta verið 30 ár í eyði er hann tók það í ábúð. Konu sína
missti hann frá dætrum sínum þremur ungum og hélt þó áfram búskap með
þeim og lánaðist furðu vel. Ein var hjá sr. Gunnari í sumar og þótti ágæt.
Jæja, ég lagði af stað snemma dags, kom víða við og var kominn á
Króksbjarg kl. 7 að kvöldi og hélt nú upp í heiðina. Heiðin er flöt með ótal
ölduhryggjum og mýrarflóum á milli en vörður hér og þar til að átta sig á. Ég
fór nú eftir vörðunum og mun hafa tekið kósinn heldur austarlega og lenti á
vetrarbrautinni þeirra Skagamanna en þegar hún er farin er allt gaddfrosið.
Er ég hafði farið nokkuð um stund kom ég að mýrarfláka er vörðurnar
stefndu á en er ég átti skammt ófarið yfir flákann lágu hestarnir í uppí kvið.
Var ég lengi að þvælast um þessar mýrar en eins og alltaf komu ný fen þegar
ég losnaði úr öðrum. Loks komst ég uppá einn ölduhrygginn og var nú orðið
kvöldsett og hálfdimmt. Sá ég þá ljósið á hinum nýja Kálfshamarsvíkurvita
þegar hann lýsti inn yfir landið. Hélt ég nú beint í norður til þess að finna Fossá
en hinn umgetni heiðarbær er á hólma í þessari á. Eftir klukkutíma fann ég nú
ána, fór ég þá að hugleiða hvort bærinn væri fyrir neðan mig eða ofan og hélt
þó heldur að hann væri fyrir ofan og reyndist það rétt. Hefði ég farið niðureftir
hefði ég lent í skurðum og veitum úr ánni. Hélt ég upp með ánni góða stund
og engan bæ sá ég. Allt í einu sá ég borð á kvísl í ánni og sá þá að bærinn hlaut
að vera þar nálægur, skyggndist ég um og sá ljós þar skammt frá. Fór ég yfir
ána og fann bæinn, þar var mér vel fagnað og var ég búinn að vera fjóra tíma
að þvælast þarna í þessari villu.
Þarna er lítil baðstofa með lágum göngum, moldargólf í þeim og eldhúsi en