Húnavaka - 01.05.2015, Blaðsíða 170
H Ú N A V A K A 168
Utan tveggja ára búsetu þeirra Stellu og Jóns á Blönduósi bjó hún í
Stóradal. Hjá þeim í heimili var lengi tengdamóðir hennar, Sveinbjörg
Brynjólfsdóttir, en hún hafði búið þar ekkja frá 1939 er maður hennar, Jón
Jónsson alþingismaður, féll frá, 53 ára gamall.
Guðfinna og Jón eignuðust fimm dætur: Þórey, f. 1945, maður hennar er
Jóhann Már Jóhannsson og eiga þau alls fimm börn. Sveinbjörg Brynja, f.
1949, hennar maður er Karl H. Sigurðsson og eiga þau þrjár dætur. Sigurbjörg
Þórunn, f. 1951, maður hennar er Svavar Hákon Jóhannsson og eiga þau þrjú
börn. Margrét Rósa, f. 1953, maki Kristján Jónsson og börn þeirra eru fjögur.
Elínborg Salóme, f. 1962, maki Hilmar Breiðfjörð Þórarinsson og eiga þau
þrjú börn.
Þau hjón, Stella og Jón, voru ung og stórhuga. Stella var húsmóðir á stóru
og gestkvæmu heimili í Stóradal. Farskóli sveitarinnar var á heimilinu og öll
börn í heimavist og á sumrin voru ævinlega mörg
sumardvalarbörn. Jón var mikill hæfileikamaður
og allt lék í höndum hans. Ef bíll bilaði eða
traktor þá var kallað á Jón og hann kom oftast
öllu í lag.
Svo urðu áföll. Fyrst brann bærinn í Stóradal
17. maí 1961. Þetta var mjög stór bær og
höfðingjasetur frá fornu fari. Ekkert bjargaðist úr
eldinum nema fólkið sem nú stóð uppi allslaust.
Stella og Jón hófust strax handa að byggja upp að
nýju en Hanna og Sigurgeir byggðu nýbýlið í
Stekkjardal.
Síðan féll Jón frá, 14. okt 1965, eftir erfiða
sjúkdómslegu. Áfram bjó Stella þó með dætrum
sínum í Stóradal og stóð þar fyrir búi fram á
áttunda áratuginn. Dugur hennar og þrek var einstakt. Eftir það starfaði hún
við grunnskólann á Húnavöllum í tæp tuttugu ár.
Árið 1979 lenti Stella í alvarlegu bílslysi og slasaðist illa. En upp stóð hún
og kvartaði ekki þó að afleiðingar þessa slyss hafi háð henni eftir það.
Þolgæði einkenndi Stellu, hún komst í gegnum hvað sem mætti henni. Hún
átti létta lund, var hjálpsöm og góð manneskja. Lengi var hún stjórnarmaður
í Sjálfsbjörg í A-Hún. Hún var gestrisin og einkar listfeng, söngvin, glaðvær og
mæt manneskja. Seiglu hennar, úthaldi og þreki er vel lýst í vísu sem Bragi frá
Hoftúnum ritaði í gestabók þeirra mæðgnanna í Stóradal árið 1967:
Þótt mörg séu örlögin meinleg og grimm
og margs konar þrautanna él,
mun konan í dalnum og dæturnar fimm
þó duga og standa sig vel.
Stella lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Útför hennar var gerð frá
Blönduósskirkju 2. maí. Jarðsett var í Svínavatnskirkjugarði.
Sr. Hjálmar Jónsson.