Fréttablaðið - 06.12.2014, Blaðsíða 48
6. desember 2014 LAUGARDAGUR| HELGIN | 48
Það getur reynst nnflytj-endum sem setjast að hér á landi erfitt að fá menntun sína metna eða fá starf sem hæfir menntuninni. Mörg
dæmi eru um að háskólamenntaðir
innflytjendur sinni láglaunastörf-
um hérlendis. Ástæðurnar eru
margvíslegar. Sumir hafa átt erf-
itt með að fá menntun sína viður-
kennda og þá sérstaklega þeir sem
koma frá löndum utan EES. Marg-
ir þeirra sem Fréttablaðið hefur
rætt við telja líka að það sé erfið-
ara að fá vinnu við sína menntun
hérlendis beri maður erlent nafn.
Flestir sem koma hingað fara
fyrst um sinn að vinna í láglauna-
störfum meðan þeir koma sér inn
í samfélagið. Tungumálið reynist
þeim mörgum fjötur um fót til að
byrja með.
Fréttablaðið hefur undanfarið
kynnt sér hvers vegna það getur
reynst innflytjendum svo snúið að
fá menntun sína metna eða starf
við hæfi.
Þyrfti að einfalda
Samtök kvenna af erlendum upp-
runa segja marga lenda í vand-
ræðum með að fá námið metið.
Stjórnar konurnar Angelique Kelly
og Anna Katarzyna Wozniczka
benda á að það þurfi að líta á nám
sem auðlind sem eigi að nýtast,
hvort sem það er erlend menntun
eða íslensk. „Ísland er að missa af
tækifæri til þess að nota menntun
og þekkingu þessa fólks,“ segir
Anna. Þær benda á að það myndi
hjálpa mörgum ef það yrði gert
aðgengilegra og auðveldara fyrir
fólk að fara í gegnum ferli til
þess að láta meta nám sitt. Einnig
mætti gera íslenskunám hagnýt-
ara að einhverju leyti þannig að
það tengist ákveðnum deildum.
Þannig ætti að vera auðveldara að
fara til starfa í því sérstaka fagi
sem viðkomandi er menntaður í.
Auðveldara fyrir fagmenntaða
Auðveldara reynist iðn- og fag-
menntuðum að fá metna sína
menntun heldur en háskólamennt-
uðum, eftir að svokallað raunhæfni-
mat var tekið upp, samkvæmt Mar-
gréti Steinarsdóttur, lögfræðingi og
framkvæmdastjóra Mannréttinda-
skrifstofu Íslands. Matið felur í sér
verklegt mat á kunnáttu. „Einstak-
lingur er settur í slíkt mat og mögu-
lega uppfyllir hann öll skilyrði eða
það vantar kannski eitthvað upp á
og þá er honum leiðbeint með það
og getur þá bætt við menntun sína.“
Hún hefur unnið að málefnum inn-
flytjenda frá árinu 2004 og segir
algeng erindi til Mannréttindaskrif-
stofunnar snúa að því að fá hjálp við
að fá menntun sína viður kennda.
Óþarfi að hræðast
Samkvæmt þeim fjölmörgu sem
Fréttablaðið hefur rætt við reynist
hvað erfiðast að fá menntun á heil-
brigðissviði metna. Kröfurnar eru
háar vegna eðli starfsins en mörg-
um þykir þær of strangar. Í síðustu
viku var sögð saga Liönu Belinski
sem er menntaður kvensjúkdóma-
læknir frá föðurlandinu Úkraínu
og hefur búið hér í ellefu ár. Hún
hefur starfað á leikskóla í átta ár
þar sem það hefur reynst henni
erfitt að fá nám sitt metið hér.
Eiginmaður hennar er menntaður
skurðlæknir en vinnur í eldhúsi og
vörumótttöku á spítala. Margrét
bendir á í þessu samhengi einnig á
að það sé óþarfi að hræðast erlenda
menntun. „Í flestum ríkjum þar
sem fólk er með háskólamenntun
þá er það fullnægjandi menntun
þannig að ég held við þurfum ekk-
ert að vera hrædd við það.“
Telur það ekki erfiðara hér
Leifur Bárðarson, starfandi land-
læknir, segist ekki kannast við að
erfiðara sé að fá metið læknisnám
hér heldur en annars staðar. „Þetta
er ekkert flókið í sjálfu sér. Við
þurfum að fá góða og gilda sönnun
fyrir því að viðkomandi hafi lokið
námi einhvers staðar og það upp-
fylli ákveðin skilyrði. Menntun á
þessum stöðum er oft með öðrum
hætti heldur en hér. Við viljum
tryggja að menn hafi þá reynslu og
þekkingu sem almennt tíðkast hér.“
Ekki séríslenskt fyrirbæri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
forstöðumaður mennta- og nýsköp-
unarsviðs Samtaka atvinnulífsins,
sagði í samtali við Reykjavík síð-
degis í vikunni, að henni fyndist
vera leifar af gömlum for dómum
sem snúa að menntun sem kemur
annars staðar frá en Íslandi.
Vinnumarkaðurinn stæði frammi
fyrir þeirri áskorun að viðurkenna
menntun annars staðar frá. Hún
sagði ekki vera um séríslenskt
fyrir bæri að ræða, staðan væri
svipuð í nágrannalöndum okkur.
Hún telur þó að þetta sé að breyt-
ast. „Fólk gerir sér grein fyrir því
að við þurfum á öllum hæfileikum
að halda. Hvar sem þeir eru í sam-
félaginu.“
Hagnýt íslenskukennsla
Óskar Dýrmundur Ólafsson,
hverfis stjóri í Breiðholti, er yfir
tilraunaverkefninu Menntun
núna sem fram fer í Breiðholti
og Norðvesturkjördæmi. Mark-
mið verkefnsins er að auka ráð-
gjöf og stuðning við menntun inn-
flytjenda. Liður í því er að hjálpa
fólki að fá menntun sína metna
hér lendis. Óskar segir reynsl-
una af verkefninu vera góða en
megin áhersla hefur verið lögð á
þá sem eru með litla menntun eða
enga. Engu að síður þekkir hann
til þeirra sem eru mikið mennt-
aðir en fá ekki störf við hæfi eða
menntun sína metna. Að hans mati
eru nokkur atriði sem mætti hafa
í huga til að hjálpa fólki að eiga
greiðari leið inn á vinnumarkað og
fá starf sem hentar þeirra mennt-
un. Nefnir hann hagnýta íslensku-
Innflytjendum reynist oft erfitt
að fá starf sem hæfir menntun
Innflytjendur sem setjast að hér á landi geta átt í erfiðleikum með að fá menntun sína metna eða starf við hæfi. Háskóla-
menntað fólk með erlendan uppruna sinnir oft láglaunastörfum hérlendis, í fyrstu til að reyna að ná tökum á tungumálinu.
Okkur finnst þetta
skrítið af því Ísland er
að missa af tækifæri til
þess að nota menntun
og þekkingu þessa
fólks. Við myndum vilja
að þetta yrði skoðað
betur og reynt að
einfalda þetta.
Angelique Kelley, í stjórn Samtaka
kvenna af erlendum uppruna.
Viðhorfið þarf að
breytast, líka meðal
stofnana og atvinnuveit-
enda, og það þarf að byrja
að horfa á menntun
innflytjenda, sem og á
menntun almennt, sem
auðlind og allar auðlindir
þarf að nýta skynsamlega.
Anna Katarzyna Wozniczka, formaður
Samtaka kvenna af erlendum uppruna.
Ein af þeim áskor-
unum sem vinnumark-
aðurinn stendur frammi
fyrir er að viðurkenna
menntun og reynslu
annars staðar heldur en
frá okkur Íslendingum
sjálfum. Ég held við
séum öll af vilja gerð.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
forstöðumaður mennta- og nýsköp-
unarsviðs Samtaka atvinnulífsins.
Þetta er ekkert
flókið í sjálfu sér. Við
þurfum að fá góða
og gilda sönnun fyrir
því að viðkomandi
hafi lokið námi
einhvers staðar og
það uppfylli ákveðin
skilyrði.
Leifur Bárðarson,
starfandi landlæknir.
Í flestum ríkjum
þar sem fólk er með
háskólamenntun þá
er það fullnægjandi
menntun þannig að
ég held við þurfum
ekkert að vera hrædd
við það.
Margrét Steinarsdóttir, lög-
fræðingur og framkvæmdastjóri
Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Ég held það
sé mikilvægt að
það sé auglýst eftir
fólki þar sem
bakgrunnur þeirra
sem innflytjandi
er metinn sem
kostur.
Óskar Dýrmundur Ólafsson,
hverfisstjóri Breiðholts.
kennslu, ráðgjafaþjónustu og að
atvinnurekendur taki það föstum
tökum að ráða inn fólk af erlendum
uppruna. „Það þyrfti íslenskunám
sem er sniðið að þörfum hvers og
eins, ráðgjafaþjónustu frá fyrsta
degi sem gæti hjálpað fólki mjög
hratt og örugglega í gegnum kerf-
ið og að atvinnurekendur, hvort
sem það eru opinberir aðilar eða
einka aðilar, taki það mjög alvar-
lega að ráða inn fólk af erlendum
uppruna með þessa hæfni,“ segir
hann. „Það gerist ekkert nema við
setjum þetta inn sem stefnu,“ segir
hann. „Eins með stjórnir fyrir-
tækja, rétt eins og við viljum jafna
kynjahlutfall þá mætti alveg kveða
sterkar að orði í mannauðsstefnu
stofnana og fyrirtækja um þetta,“
segir hann.
Stacia Zakarauskiené flutti til Íslands árið 2007. Hún er frá Litháen og menntuð sem dýralæknir þaðan. Hún vann
við dýralækningar þarlendis í nokkur ár og ýmis störf tengd menntun sinni. Þegar hingað var komið fékk hún
menntun sína metna en hefur ekki starfað sem dýralæknir. Hún fékk samning til reynslu hjá dýralækni en endaði
á að vinna í kjötvinnslu þar sem hún hefur átt í erfiðleikum með að ná tökum á íslenska tungumálinu. „Ég reyndi
að vinna sem dýralæknir en það stoppar mig að ég er ekki góð í íslensku. Ég get ekki talað mjög flókið og útskýrt
hluti.“ Núna vinnur hún í kjötvinnslu og kann vel við sig. „Íslendingar eru yndislegir. Vinnufélagar mínir hafa stutt
mig mjög mikið og mér finnst mjög gott að vera hér,“ segir hún. „Ég mun samt vonandi einn daginn starfa við það
sem ég menntaði mig til, þegar ég hef náð betri tökum á íslenskunni.“
Dýralæknir frá Litháen sem vinnur í kjötvinnslu
ÁNÆGÐ Í VINNUNNI Stacia fékk menntun sína metna en vegna þess að hún hefur ekki náð góðum tökum á íslensku hefur hún
ekki treyst sér til að vinna sem dýralæknir. Hún útilokar þó ekki að vinna við menntun sína hér á landi seinna meir. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
„Ég kom hingað fyrst sem aupair árið 2001. Síðan kynntist ég manninum
mínum og þá ákvað ég að setjast að hérna,“ segir Alina Kerul sem er frá
Litháen. Hún er menntuð sem saumafræðingur frá heimalandinu. „Fyrstu
árin var ég að læra tungumálið og komast inn í samfélagið. Síðan langaði
mig að gera meira og þess vegna skráði ég mig í hagfræði í háskólanum.“
Alina segist hafa haft einstaklega gaman af náminu og fengið góðar
einkunnir þrátt fyrir að hafa verið með pínulítið barn á þessum tíma. Þegar
hún útskrifaðist úr BS-náminu leitaði hún að vinnu í átta mánuði en varð
ekkert ágengt í þeim efnum.
„Ég ákvað þá að taka master í fjármálahagfræði.“ Þaðan útskrifaðist hún
með fyrstu einkunn. Eftir útskrift fór hún að sækja um störf á nýjan leik en
ekkert gekk. „Ég sótti um 200 störf og fékk fjögur viðtöl. Þetta var ömurlegt.
Ég horfði upp á samnemendur mína sækja um sömu störf og fá þau.“
Hún segist auðvitað ekki geta sagt það með vissu en hana grunar að það
hafi eitthvað að gera með það að hún beri erlent nafn. Þeim umsóknum sé
tekið á annan hátt en ef nafnið er íslenskt. „Þetta tók mjög á. Þetta hafði
mikil áhrif á sjálfstraustið hjá mér því þetta er það sem ég hef svo gaman af
og langaði að vinna við,“ segir hún.
Í dag vinnur hún í Jafnréttishúsi við ýmis skrifstofustörf. „Amal bjargaði
mér. Ég hitti hana einu sinni og var að segja henni frá þessum vandamálum
og hún bauð mér vinnu,“ segir hún og vísar þar til Amal Tamimi sem rekur
Jafnréttishús. Hún hefur þó ekki gefist upp og vonast til þess að hún muni
einn daginn starfa sem hagfræðingur.
„Hjarta mitt er í hagfræðinni og það er það sem ég elska að gera. Vonandi
fæ ég vinnu við það einhvern tímann en núna er allavega ekkert í boði.“
Sótti um 200 störf en fékk ekki starf við það sem hún lærði
HJARTAÐ TILHEYRIR HAGFRÆÐI Alina
útskrifaðist með master í fjármálaverkfræði
og hefur sótt um fjölda starfa án þess að fá
vinnu. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Viktoría
Hermannsdóttir
viktoria@frettabladid.is