Són - 01.01.2015, Page 13
Arndís Hulda Auðunsdóttir og Aðalheiður Guðmundsdóttir
„Berðu mér ei blandað vín“
Um rímnakveðskap Sigurðar Breiðfjörð,
skáldskaparmjöðinn og áfengið
Þótt ef til vill megi segja að rímnaskáld í gegnum tíðina séu jafn misjöfn og
þau eru mörg, eiga þau það sameiginlegt að móta og yrkja inn í hefð sem
grundvallaðist um margt á eldri skáldskapargreinum. Skáldskaparmálið
sóttu þau einkum til dróttkvæða, a.m.k. framan af, og ortu, líkt og drótt-
kvæðu skáldin, undir hinu upphafna tungumáli heita og kenninga. Það
líkingamál sem einkennt hafði heiti og kenningar dróttkvæðanna, og
rann svo saman við skáldskaparmál rímnanna, var að hluta til sótt til enn
eldra efnis, eða norrænna goðsagna. Á hinn bóginn sóttu rímnaskáldin
þó einnig í goðsagnirnar beint, og þá einkum í inngangserindum sínum,
hinum svokölluðu mansöngvum. Sú hugmynd virðist til að mynda hafa
fylgt rímunum alla tíð að rímnaflæðið tilheyrði skáldskaparmiðinum og því
líktu skáldin þeirri iðju sinni að „brugga“ og bera fram rímur við mjöðinn
góða, þann sem frá segir í Eddu Snorra Sturlusonar. Á meðan á rímna-
skemmtaninni stendur flæðir skáldskaparmjöðurinn fram í formi kveð-
skapar, þeim veigum sem skáldið býður áheyrendum sínum að hlýða á.
Sú hefð sem hér um ræðir og viðgekkst um aldabil verður nú athuguð
nánar, og þá sér í lagi hvernig goðsögnin um skáldskaparmjöðinn að
lokum berst inn í rímnakveðskap Sigurðar Breiðfjörð, eins ástsælasta
rímnaskálds þjóðarinnar, þar sem segja má að hún nái nýjum hæðum.
Annars vegar verður því litið til upphafs hefðarinnar og mansöngvar fyrstu
rímnaskáldanna skoðaðir með tilliti til goðsagnarinnar og hins vegar verða
mansöngvar Sigurðar bornir saman við mansöngva eldri skálda. Í upphafi
er þó nauðsynlegt að gera grein fyrir goðsögninni og tilurð mjaðarins,
auk þess sem sagt verður frá Sigurði og ævi hans, sem endurspeglast svo