Són - 01.01.2015, Page 21
„Berðu mér ei BlAndAð vín“ 19
Áfengi í mansöngvum Sigurðar
Sigurður fór ekki leynt með löngun sína í áfengi og eru fjölmörg dæmi
þess í kveðskap hans og þar á meðal mansöngvum. Þetta má meðal
annars sjá af titlum kvæða á borð við MITT FYLLTA GLAS og VÍNÞRÚGAN
GULLI VÆNNI ER, sem bæði voru gefin út í Ljóðasafni hans árið 1951. Í
þessari rannsókn verður þó einungis litið til mansöngva Sigurðar, og
verða nokkrir þeirra teknir til nánari umfjöllunar.
Í RÍMUM AF INDRIÐA ILBREIÐA kvartar Sigurður undan því að konur
líti ekki við honum lengur og kennir þar um elli sinni eins og rímna-
skáldum er tamt og mætti auðveldlega segja að um ritklif sé að ræða
(Björn K. Þórólfsson 1934:278).19 Sigurð grunar þó að stúlkurnar hræðist
ekki einungis elli hans heldur einnig brennivínsflöskuna sem gjarnan
fylgdi honum:20
Æ, þær fælast efalaust
elli og flösku mína.21
Þótt það hafi alla tíð verið alvanalegt að rímnaskáld kvarti undan að-
stæðum sínum var áfengisskortur ekki eitt af því sem algengt getur
talist.22 Líkt og fram hefur komið drakk Sigurður ótæpilega um ævina
og drykkja hans varð að umtalsefni meðal almennings. Í vísubrotinu hér
að framan er ljóst að Sigurður nýtti sér eigið líf sem efnivið og á það við
um marga mansöngva hans. Á svipuðum nótum lýsir hann almennings-
álitinu, eins og hann skynjar það, í níunda mansöng NÚMARÍMNA, en
þar leggur hann íslenskum konum orð í munn: „Sannast var, að sopinn
þótti Sigga góður,“23 segja þær og halda áfram:
Raun var mér og mörgum að hans miklu drykkju,
meðan hann var hér á flakki
hélt hann áfram slíku svakki.24
19 Ritklif eru „hefðbundin efnisatriði sem sífellt eru endurtekin í bókmenntum (og
öðrum list- og fræðigreinum) með örfáum tilbrigðum öld eftir öld“ (Sverrir Tómasson
1983:219).
20 Rímur af Indriða ilbreiða I 12–13 (Sigurður Breiðfjörð 1856:4).
21 Rímur af Indriða ilbreiða I 13.3–4 (Sigurður Breiðfjörð 1856:4). Í tilvitnunum í rímur
Sigurðar er stafsetning og greinarmerkjasetning samræmd.
22 Um hefðbundið efni mansöngva, sjá Björn K. Þórólfsson 1934:271–284.
23 Númarímur IX 13.1 (Sigurður Breiðfjörð 1835:86).
24 Númarímur IX 13 (Sigurður Breiðfjörð 1835:86).