Són - 01.01.2015, Page 22
20 Arndís HuldA Auðunsdóttir og AðAlHeiður guðmundsdóttir
Drykkja skáldsins er hinum ímyndaða mælanda vísunnar til ama. Af
þessu sést greinilega hversu meðvitaður Sigurður hefur verið um drykkju
sína og að hún gat haft áhrif á bæði viðhorf annarra til hans og á líf
samferða manna hans, ekki síst fjölskyldu hans.
Í rímum sínum fjallar Sigurður ekki einungis um viðhorf annarra til
drykkju sinnar. Í LÍKAFRÓNSRÍMUM, síðasta rímnaflokknum sem hann
samdi, segist hann kveða af nauðsyn:
Lukkan mín er rög og ring,
rekkar til þess margir vita,
kvæðin eg af sulti syng,
svo eg fái staup og bita.25
Á þessum tíma var Sigurður fluttur til Reykjavíkur en líkt og áður segir
bættist hagur hans lítið við flutningana og jafnvel má telja líklegt að
lélegt heilsufar hans hafi gert honum lífið erfiðara. Í vísunni kemur skýrt
fram að hann hafi ekki verið allskostar sáttur við örlög sín en hann
reynir enn að kveða til að eiga von um brennivínstár og bita að borða.
Svo virðist sem þessi óbeina bón Sigurðar um brennivín hafi ekki borið
mikinn árangur því í áttunda mansöng sömu rímna sækir löngun hans í
áfengi enn frekar að honum:
Enginn semur orð um kaup,
eg þó ljóðin sýni;
enginn kemur inn með staup,
af því góða víni.
Von er andinn veiklist hér
og verði þröngvir gómar,
flöskur standa framan í mér,
fyrir löngu tómar.
…
Þótt að ringar séu um sinn
silfur grunnar töskur
komið hingað allar inn,
ámur, tunnur, flöskur.26
25 Líkafrónsrímur IV 2 (Sigurður Breiðfjörð 1843:24).
26 Líkafrónsrímur VIII 6–7, 13 (Sigurður Breiðfjörð 143:53–54).