Són - 01.01.2015, Page 33
„Berðu mér ei BlAndAð vín“ 31
þráir hann að vera það skáld sem hefur hvað mestan og bestan aðgang
að miðinum góða.
Lokaorð
Í grein þessari hefur verið rætt um goðsögnina um skáldamjöðinn og
hvernig Sigurður Breiðfjörð nýtti hana á annan og persónulegri hátt
en fyrri rímnaskáld. Ólíkt þeim gæðir hann persónur goðsagnarinnar
lífi og sjálfur á hann í samræðum við Óðin, hetju sagnarinnar. Ekki
er ástæða til að ætla að Sigurður hafi verið fyrsta eða eina skáldið sem
fjarlægðist þá einhæfu notkun sem elstu rímnaskáldin höfðu í vísunum
sínum til goðsagnarinnar og má til að mynda nefna að í TITTLINGSRÍMU,
eignaðri Eyjólfi Péturssyni (d. 1836) í Rein og GÖNGU-HRÓLFS RÍMUM
Hjálmars Jónssonar virðast skáldin vísa í goðsögnina með öðrum hætti
en eldri skáld. Í HJAÐNINGARÍMUM notar Hjálmar goðsögnina hins vegar
með hefðbundnum hætti, og líkt og Sigurður kvartar hann undan því
að fá ekki dropa af miðinum dýra. Í framhaldinu ræðir skáldið svo um
drykkjusiði landsmanna, og því má segja að hann noti goðsögnina um
skáldskaparmjöðinn sem kveikju að þeirri umræðu, án þess þó að blanda
miðinum saman við brennivín, líkt og Sigurður gerir.49
Hin hefðbundna vísun rímnaskáldanna í goðsögnina felst einna helst
í því að skáldin segjast yrkja eða færa áheyrendum kveðskap sinn, svo
sem með því að „reisa Fundings far“50 eða „brugga Berlings win“,51 og
kvarta þau gjarnan yfir eigin hlutskipti og ónæga hlutdeild í miðinum
góða. Í upphafi greinarinnar var sýnt fram á hvernig þessi hefð hafði
lifað samfellt í íslenskum rímnakveðskap frá fyrstu tíð og fram á daga
Sigurðar. Líkt og fram hefur komið gerir Sigurður slíkt hið sama í
sumum erindum sínum en annars staðar gerir hann persónur goðsagnar-
innar, og þá sérstaklega Óðin, raunverulegri í huga áheyrenda þar sem
hann lýsir samskiptum og samræðum sínum við hann. Skáldaferill hans
er í höndum Óðins og samkvæmt því vex biturðin út í guð skáldskapar-
ins eftir því sem hallar undan fæti í lífi skáldsins. Með þessu gerir hann
skilin á milli goðsagnaheimsins og hins raunverulega óljós og samspil
goðsagnarinnar og þeirra kenninga sem til hennar vísa verða leikandi og
ljóslifandi.
49 Hjaðningarímur II 1–16 (Hjálmar Jónsson 1905:16–18).
50 Lokrur II 2.1 (Finnur Jónsson 1905–1922 II:294).
51 Sturlaugsrímur I 1.1 (Finnur Jónsson 1905–1922 I:455). Berlingur er dvergsheiti.