Són - 01.01.2015, Page 40
38 Þórður HelgAson
Margfrægt dæmi um hljóm orðs í samræmi við hugtak er enska orðið
spring um árstíð gróandans. Á eftir iðbjörtu sérhljóði kemur raddað
samhljóða-samband syngjandi og klingjandi. Orðið minnir á sólskin
og fuglasöng með hljómi sínum einum saman. Þessu glaða orði sam-
svarar í íslenzku orðið vor, eitthvert dapurlegasta orð í heimi. Kannski
hæfir það þeirri árstíð þegar búpeningur fellur úr hor, og hrafnar éta
gor. Þetta hrollkalda or-hljóð hefur reyndar öðlast heimsfrægð fyrir
sinn ömurleik vegna hins alkunna kvæðis Edgars Allans Poe, The
Raven. Hann gefur látinni unnustu nafnið Lenore, og þaulrímar svo
allt kvæðið á móti viðlaginu „Nevermore“, sem magnar merkingu
sína með sjálfum svip orðsins. Þegar bráir af skáldinu og hann leitar
huggunar í hlýjum minningum, þá heitir stúlkan hans ekki Lenore,
heldur Annabel – Lee eða Eulalie, og hin björtu sérhljóð í fylgd með
gælandi l-hljóði ráða síðan rími og um leið öllu yfirbragði heilla
kvæða.
(Helgi Hálfdanarson 1998a:134–135)
Hinn harða dóm Helga yfir orðinu vor má skilja ef eingöngu væri hlustað
á hljóðan þess eina og sér án tengsla við merkingu. Það segir hins vegar
ekki alla söguna. Þjóð, sem um aldir hefur beðið vorkomunnar eftir
langa og harða vetur, vorskipunum, vorboðunum og vorvindunum, hefur
naumast á tilfinningunni að orðið vor sé dapurlegt orð; öllu heldur boði
það fögnuð, fegurð og von. Það sem Helgi hefur að segja um vorið
fjallar Vilh. Andersen um í verki sínu Sprog og Litteratur og kallar bitone,
sem veldur annaðhvort virðisauka orðsins eða það gjaldfellur (Andersen
1914:49).
Sé hlustað á orðið ís með þessum eyrum Helga mætti með nokkrum
rétti halda því fram að ís væri meðal fegurstu orða tungunnar. Þó kemur
aftur að því að við verðum að skoða orðið í víðara samhengi. Það má til
sanns vegar færa að orðið ís hljómi fagurlega í eyrum barns sem þykir
ekkert smakkast betur en ís. En orðið á sér vitaskuld aðra sögu, langa og
oft dapurlega, sem sannarlega gerir það lítt fýsilegt eyrunum. Um langan
aldur barðist þjóðin við þennan „landsins forna fjanda“, ísavetur langa
og miskunnarlausa, og horfði á fénað sinn, jafnvel börn sín, dragast upp
vegna hungurs og kulda.
Þannig er tilfinning fólks fyrir einstökum orðum mjög einstaklings-
bundin og kemur þar margt til eins og þessi dæmi sýna. Við getum
myndað orð án merkingar sem hljóma illa í eyrum, en orð með merk-
ingu í málinu eru áreiðanlega hvorki ljót né fögur, dapurleg né glaðleg,