Són - 01.01.2015, Síða 41
ljóðAHljóð 39
nema í samhengi við annan texta og persónulega reynslu okkar sjálfra.
Orðið vor getur þannig misst fögnuð sinn, tilhlökkun og von eins og í
eftirfarandi dæmi sem er staka eftir Stephan G. Stephansson (1953:73).
Korkuð borin blána af sult
blóm í skor og rjóðri –
nízkt er vor og naumgjöfult.
Nú er hor í gróðri.
Þetta er dapurlegt vor í anda Helga, en af hverju? Jú, þetta vor er komið
í slæman félagsskap; hið dimma o-hljóð hnappast að því og kallar til sín.
Þessi o eru í lykilaðstöðu fyrir eyrað þar sem þau bera uppi innrímið, og
svo bætist korkuð við, sem varla lokkar okkur til sín. Eins og í mannlífinu
hefur vondur félagsskapur gjarna slæm áhrif og eins og hér kemur fram
lendir vorið vegna hans í sollinum. Afstaða höfundarins bætir auðvitað
ekki úr skák og gerir vorið lítt eftirsóknarvert. Vorið í stöku Stephans G.
er því dapurlegt eins og Helgi lýsir.
Annað er uppi á teningnum í ljóðinu VORVINDAR GLAÐIR, sænsku
þjóðlagi í þýðingu Helga Valtýssonar (1990:3):
Vorvindar glaðir,
glettnir og hraðir,
geysast um löndin rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,
hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á;
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður,
frjálst er í fjallasal.
Hér er á ferðinni vor sem er síður en svo er dapurlegt. Hér er vor sem
breytir öllu fyrir mannfólkið sem tekur við því. Því ræður ekki einungis
afstaða ljóðmælanda, heldur ekki síður orðanna hljóðan. Vorið er hér í
góðum félagsskap. Hin (gjarna) ljúfu og mildu samhljóð ráða ríkjum;
ð, n, l, s og ekki síst nd í vindar og löndin. Mikilsvert er og hlutverk
tt (glettnir, rétt), pp (skoppa, hoppa) og tl (litla) sakir þess að þar undir-
strikar aðblásturinn enn frekar kætina; textinn eins og grípur andann á