Són - 01.01.2015, Page 51
ljóðAHljóð 49
hygðu að orðanna hljóðan enda fátt um eiginlega ritdóma lengi fram
eftir nítjándu öld. Ljóst er þó að mörg skáld gerðu sér fulla grein fyrir
gildi þess að hljómur ynni með öðrum áhrifum ljóðsins og reru á þau
mið. Jónas Hallgrímsson hefur án efa haft mikið að segja í þeirri þróun
og ekki má gleyma Jóni á Bægisá sem lagði áreiðanlega línurnar fyrir
Jónas en aðrir fylgdu í kjölfarið og því má náttúrlega ekki gleyma að
rímnahöfundarnir höfðu um aldir kannað orðanna hljóðan svo sem
fram hefur komið. Umræðan lét þó á sér standa; þeir fáu sem fjölluðu
um einstök ljóð og ljóðabækur í ritdómum eða greinum í tímaritum og
blöðum minntust sjaldan á hljóma og þá með óljósum hætti og gerðu
enga tilraun til greiningar þeirra.
Það kemur því ekki á óvart að einna fyrstur til að minnast á áhrif
hljóða í ljóðagerð var skáld, Grímur Thomsen, í erfiljóði eftir Jónas
Hallgrímsson þar sem hann verður fyrstur til þess að kalla Jónas „lista-
skáldið góða“. Í ljóðinu JÓNAS HALLGRÍMSSON beinir hann í þremur
erindum athyglinni að hæfileika Jónasar til að láta hljóminn mála efnið
(Grímur Thomsen 1969:92–93).2
Þú gazt látið lækjarnið
í ljóðum þínum heyra,
sjávarnið og svanaklið,
sanda bárur keyra.
Gazt í brag við björgin foss
bráðum látið sinnast
og hendingarnar heitum koss
hverja við aðra minnast.
Náttúrunnar numdir mál,
numdir tungu fjalla,
svo að gaztu stein og stál
í stuðla látið falla.
2 Fleiri skáld bættust í hópinn sem gerðu hljómáhrif í ljóðum Jónasar að umfjöllunar-
efni. Til dæmis má nefna Kristján frá Djúpalæk sem í ljóði sínu, JÓNAS HALLGRÍMSSON,
sem hann orti á 150 ára ártíð listaskáldsins, segir svo í fyrsta erindi um það einkenni
ljóða Jónasar að virkja eyrað: „Við heyrðum lindahjal í mó / og heiðablæinn anda, / og
ástakvak um álftavatn / og öldunið við sanda, / og þrastaklið og fossaföll / í fylgsnum
dals og stranda“ (Kristján frá Djúpalæk 2007:193).