Són - 01.01.2015, Síða 53
ljóðAHljóð 51
Ólafur Davíðsson færist nær greiningu er hann segir um SJÓFERÐ eftir
Hannes Hafstein að „það liggur alveg eins mikil íþrótt í sjálfu hljóð-
fallinu og í orðum og hugsun. Og þótt skynsemin sé margbúin að telja
manni trú um, að allur skáldlegur búningur sé hégómi; það sé hugsunin
ein, sem skilur á milli skálda og leirskálda, þá verður maður þó að dást
að öðrum eins híalínsbúningi og fellur niður um Sjóferðina“ (Ó[lafur]
D[avíðsson] 1893:28). Guðmundur Friðjónsson segir um Biblíuljóð I eftir
Valdimar Briem að skáldið „er svo mikill rímsnillingur, svo mikill dvergur
að fella saman orð og hljóm, að fyrir það eitt er hann íþróttamaður, þótt
ekki væri um annað að gera … Biblíuljóðin eru dvergasmíð rímlistar
og hljóms“ (Guðmundur Friðjónsson 1898b:43). Jónas Guðlaugsson fær
þann vafasama dóm J.S. að kvæði hans séu „mjög efnislítil og innantóm,
– en glamra þó furðanlega í eyrum“ (J.S. 1906:82).
Jón Ólafsson og Guðmundur Friðjónsson
Það líður að lokum nítjándu aldar og fram á hina tuttugustu þar til við
fáum að sjá eiginlega greiningu á hljómi ljóða. Þar koma við sögu tvö
skáld, Jón Ólafsson og Guðmundur Friðjónsson.
Árið 1882 birtist ritdómur Jóns um tímaritið Verðandi. Þar verður
honum mjög starsýnt á ljóðið SKARPHÉÐINN Í BRENNUNNI eftir Hannes
Hafstein. Þar segir hann:
Afbragðsheppilega er valið af skáldinu að láta 4 miðvísu-orðin í
hverju erindi hafa 3-atkvæðahendingar, en það er sú tegund ríms,
er þjóðverjar kalla «gleitend» (eiginl. rennandi eða smjúgandi). Sá,
sem sjeð hefir húsbruna, getur varla lesið þetta svo, að fallandinn
minni hann ekki ósjálfrátt á, hvernig glóðtungurnar sleikja sig eftir
viðunum; manni finst eins og hann heyri snarka í bálinu. Það er list
fyrir sig, en list, sem er ómissandi lýrisku skáldi í eiginlegasta skiln-
ingi að kunna, að finna hátt, er svarar til efnis, og fallanda og hljóm í
orðunum, er hefir tilsvarandi áhrif á eyrað, eins og innihald orðanna
á sálina. Það getur verið hljóðlist (musik) í málinu, þótt það sje lesið
en eigi sungið.
(Jón Ólafsson 1882:69)
Um sams konar áhrif hljóms og hrynjandi fjallar Jón síðan um SJÓFERÐ
Hannesar Hafstein (1882:69).