Són - 01.01.2015, Page 63
ljóðAHljóð 61
Hér eiga í-in stærstan þátt í hljómi ljóðsins, en önnur hljóð leika undir,
ei-hljóðið, hið mjúka ð, l-ið, og s-ið og samhljóðasamböndin nd og ng.
Við finnum að norðanbylurinn og útsynningurinn hafa vikið fyrir nýjum
og betri tíma. Hörð lokhljóð í áhersluatkvæði koma ekki við sögu fyrr
en í þremur síðustu línunum.
í-in koma sannarlega við sögu hjá Sigurði Breiðfjörð í frægri vísu
hans úr Rímum af Núma kóngi Pompílssyni, en eru ekki ein á ferð um að
skapa stemningu; þar koma til dæmis hin mjúku ð við sögu. Þar leikur
innrím hringhendanna með þungri áherslu mikið hlutverk (Sigurður
Breiðfjörð 1903:77):
Dýrin víða vakna fá,
varpa hýði nætur,
grænar hlíðar glóir á,
grösin skríða á fætur.
Og í 5. og 6. vísum mansöngs 3. rímu, þar sem Sigurður ávarpar fóstur-
jörðina (Móður-jörð, hvar maður fæðist) lætur hann í-in verða eins
konar stef (Sigurður Breiðfjörð 1903:16):
Um þína prýði að þenkja og tala,
það er tíðast gleðin mín,
í högum fríðu hlýrra dala,
hjörð um skríður brjóstin þín.
Smala hlíðin hjarða fjöldin,
heim að líður stekkjunum,
þar eg síð á sumar-kvöldin,
sat í víðir-brekkunum.
En í-in geta líka undirstrikað annað eins og þetta dæmi úr GRETTISLJÓÐUM
Matthíasar Jochumssonar sýnir, er lýst er viðureign þeirra Grettis og
Gláms: „Það ýlir í veggjum, það orgar í þökum, / það ískrar af heiftar
bræði“ (Matthías Jochumsson 1956:633). Og sjálfsagt eru áhöld um fegurð
í-sins í þessu erindi ljóðsins TÍÐARFARIÐ eftir Stephan G. Stephansson
(Stephan G. Stephansson 1953:74).
Slegna hlíð og hirtan völl
hreggin tíðu næð' um.
Jörðin bíður, afklædd öll,
eftir hríðar klæðum.