Són - 01.01.2015, Síða 69
ljóðAHljóð 67
Ein í auðum dali
áin niðar gegnum víðimó,
hægur sunnansvali
silfurdöggvar hverja tó;
sofa hjarðir, sefur ló,
svífur þoka í skriðum,
læðist grá með loðna skó
lágt í rauðum skriðum.
Helgi Hálfdanarson greinir ljóðið og hljóma þess og ritar: „Ætli það
sé ekki vandfundin í íslenzkum skáldskap betri sambúð forms og efnis
en í þessu litla ljóði. Mýkt og blíða einkennir orðavalið, og sæld lif-
andi kyrrðar angar úr hverri línu, næstum því úr hverju atkvæði“ (Helgi
Hálfdanarson 1955:67). Þessi orð skýrir Helgi svo nánar og sökkvir sér
með innlifun í hljómalistina:
Öll rímorðin enda á sérhljóðum, karlrímið er -ó, en kvenrímið -ali,
eitt af indælustu hljóðsamböndum tungunnar, hreint, sællegt og
hógvært í senn – einsog sjálf sumarnóttin; og auk rímorðanna kemur
að lokum endurtekin um-ending sem einnig fylgir mýkt og velsæld.
Sama máli gegnir um stuðlana. Kvæðið hefst á hljóðlátri sérhljóða-
stuðlun; síðan er tvívegis stuðlað með s, hljóðinu sem mæður svæfa
börn sín með; og að lokum kemur l-stuðlun, ljúf og gælandi.
En bragskraut þessa ljóðs er ekki allt þar sem er rím og stuðlar,
síður en svo; en einsog títt er um ljóð Snorra lætur skrautið þeim
mun minna yfir sér sem meira er af því; og hér er það líkt og sofandi
lóan í sjálfri myndinni: við sjáum hana ef til vill ekki, en vitum þó af
henni í hverjum rinda.
Rímorðin eiga sér hendingar inni í ljóðlínunum: áin, mó, grá,
skó – dali, svali, silfur – og auk þess er ljóðið alsett íðilmjúkum ð-
og f-hendingum: sofa, sefur, svífur –auðum, niðar, víði, læðist, loðna,
rauðum, skriðum.
Og þó eru ótaldir þeir hugðvakar sem læðast óséðir með öllu á milli
línanna. Þegar fram er komið ó-rímið í fyrra hlutanum (mó, tó) og
einkum þegar við bætist þriðja rímorðið (sefur ló), þá er maður farinn
að búast við orðinu ró áður ljúki … Ennfremur hlýtur ð-hendingin í
átta orðum þessa ljóðs að valda því, að orðið friður geri vart við sig
uppundir yfirborði vitundarinnar og skilji þar eftir merkingu sína.
(Helgi Hálfdanarson 1955:67–68)