Són - 01.01.2015, Page 71
ljóðAHljóð 69
Draumur tómur er það ekki;
óminn þennan vel jeg þekki.
Myrkraklefa
úr án efa
ómur hljómar glaður sá.
Reyndar sigursönginn glaðan
sízt er von að heyra þaðan;
ei að síður
ómur blíður
ómar myrkvastofu frá.
Þarna taka mörg önnur hljóð þátt, ð-in eiga þar ekki lítinn hlut að máli.
Ef til vill hafa engin hljóð verið notuð eins mikið til að mála indæla
tóna í íslenskri ljóðagerð og klasarnir nd, ng og ngj, mjög oft sem
stemnings hljóð um góðviðri, kvöldkyrrð, vor- og sumardýrðir. Við það
bætist að unnt virðist vera að túlka golu eða hægan vind með sítekningu
hljóðanna, einkum nd-hljóðsins. Gott dæmi er VORSÖNGUR eftir
Steingrím Thorsteinsson. Í ljóðinu beitir hann fyrir sig ýmsum hljóðum,
allt eftir stemningunni. Í fjórða erindinu kemur að vorblænum og þá
tekur ng-hljóðið yfirhöndina (Steingrímur Thorsteinsson 1910:125– 126):
Andar vorblær um vanga,
Vellir blómgaðir anga,
Rásar hagakát hjörð
Létt um lyngvaxnar bringur,
Löngum hóar og syngur
Kátur hjarðsveinn, sem heldur vörð.
Heimur drengsins í ljóðinu SMALADRENGUR Steingríms Thorsteinssonar
verður að unaðsreit undir nd- og ng-hljómunum, auk mb-hljóðsins í
lömb (Steingrímur Thorsteinsson 1910:130):
Út um græna grundu
Gaktu, hjörðin mín;
Yndi vorsins undu,
Eg skal gæta þín.
Sól og vor eg syng um,
Snertir gleðistreng;
Leikið, lömb, í kringum
Lítinn smaladreng.