Són - 01.01.2015, Page 73
ljóðAHljóð 71
Sé litið til rímnanna kemur í ljós að þetta er ekki nýtt af nálinni. Sigurður
Breiðfjörð kann greinilega að lýsa vindum með sama hætti, til dæmis í
Rímum af Víglundi og Ketilríði, elleftu rímu. Seinni vísan er greinilega
dýrari í rími en háttur rímunnar segir til um, eingöngu að því er virðist
til að styrkja nd-hljóð vindsins (Sigurður Breiðfjörð 1905:94 og 95):
Nú kom vindur nesjum frá,
nöldra lindar-dætur,
og í skyndi undan þá
öfugt hrindast lætur.
Eina stund í æstum vind,
ála- þundur-glóða,
stóð Víglundur Hlés á hind;
hann þá mundi ljóða:
Og í sömu rímum, þriðju rímu gerir hann einnig bragarhátt sinn í einni
vísunni dýrari en ríman segir til um, enn með auknu rími, og vakir þá
líklega fyrir honum hið sama og lýst var hér að ofan (Sigurður Breiðfjörð
1905:26):
Skipið flaut í lófum lár
létt á undan vindi setti,
unz úr skauti unnar blár
ísa grundin tinda rétti.
Í Rímum af Þórði hreðu eftir Hallgrím Jónsson breytir höfundur um
bragarhátt með auknu rími til að ýta undir áhrif nd-hljóðsins (Hallgrímur
Sveinsson 1907:38):
Einn sig þegar öðrum jórinn undan þandi,
og heyrði undir hinum dundi,
hamaðist þá sem springa mundi.
Í Rímum af Flóres og Leó frá sautjándu öld eftir þá Bjarna Jónsson
Borgfirðingaskáld og Hallgrím Pétursson eru klasarnir nd, ng, ld notaðir
til að sýna vindinn og orrustugnýinn (1956:89).
Byrinn í hvörju bandi söng,
að borði þrengdi aldan löng,
þeir fóru so allt um Fenedí land,
felldu þjóð með eldi og brand.