Són - 01.01.2015, Page 83
ljóðAHljóð 81
Sat eitt kveld að sumbli kátur
sjóli hár á gullnum stóli.
Stólkonungsins stól í kringum
stóðu glaðar kappa raðir.
Svásar, ljósar svanadísir
svifu ljettar gólfið yfir,
Strengi snertu, með sætum söngvum,
sungu ljóð með þúsund tungum.
s-hljóðið, sem hér ræður ríkjum, flytur lesandanum sætan og viðfelldinn
óm úr salarkynnunum, einmitt sem andstæðu við ólifnaðinn sem smám
saman eykst í höllinni og lýst er með allt öðrum hljóðum.
s-ið er þó ekki við eina fjölina fellt. Skáldið Gestur yrkir MANN-
SKAÐAVEÐUR og áberandi er hversu hann lætur s-in taka undir með
veður ofsanum svo úr verður eins konar hljóðgervi í hvæsa, hvissa, hvassir,
-gassar (Gestur 1918:84):
Fara skal á fjörur,
fárs er von af bárum;
vaða uppi víða
voðafelliboðar;
hvæsa hátt og hvissa
hvassir hríðargassar.
:,: Synda flök á sundum
sundurtætt að grundu. :,:
Önnur hljóð taka undir; r-in, hv, nd o.fl. sem byggja undir hvininn og
veðurofsann.
Bæði Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti: „Háir fossar hlæja og flissa“
(Sigurður Sigurðsson 1978:148 ) og Stephan G. Stephansson: „Flissa á
brotum bláar ár“ (Stephan G. Stephansson 1953:136) láta fallvötn sín
„flissa“, hugsanlega til að mála ferð vatnsins í eins konar hljóðgervingu.
Guðmundur Andrésson virðist í Bellerofontis rímum sínum láta
s-hljóðið taka undir með siglingu um úfinn sjó í þessari vísu; ys-hljóðið
magnast og verður að þyt svo minnir á hljóðgervi (Guðmundur
Andrésson 1949:83):
Skýja rysju gerði gys
glæs að hesti lúðum,
reyndi þys með þráum ys
þylur brim á súðum.