Són - 01.01.2015, Qupperneq 91
ljóðAHljóð 89
Þú sast í lest og lést þig dreyma hæst,
og loksins hafa draumar þínir ræst.
Andersen nefnir þetta st-hljóð í DANEVIRKE VISE eftir Laurits Kok (að
talið er) „Kong Christian stod ved højen Mast“. Í fyrsta erindi ljóðsins
kallast á Mast – fast – brast – og Mast. Andersen bendir á „den stærke
Lydforbindelse –ast, der gaar af som Projektiler i de malende Langlinjers
Slutning“ (Andersen 1914:64).
Lokhljóð
Kristján Eiríksson segir þetta um lokhljóðin í íslensku: „Einnig þykir
sem áorkan lokhljóðanna p, t, k, b, d, og g sé þyngri en önghljóðanna
… Þá skiptast lokhljóðin í harðhljóð, p, t, k, og linhljóð, b, d, g, og
segja þær nafngiftir til um hvernig þau orka á fólk“ (Kristján Eiríksson
1990:32). Kristján bendir og á að harðhljóðin (í innstöðu) þurfi að líða
fyrir linmælið sem hefur nú undirtökin í framburði landsmanna (Kristján
Eiríksson 1993:7).
Það kemur ef til vill á óvart að lokhljóðin virðast í íslenskri ljóðagerð
furðu lítið koma við sögu nema í samhljóðaklösum sem ákvarðandi um
tón ljóða, þvert gegn því sem búast mætti við. Verður þá að horfa til þess
að þau eru „þögul“ og bera því ekki hljóm. Verður hér látið nægja að
fjalla um þau með öðrum hljóðum.
kk, tt, pp – aðblástur
Kristján Eiríksson hefur eftirfarandi að segja um hörðu lokhljóðin kk, tt,
pp í Stíltækni sinni: „Í stuttum orðum er meiri hraði, snerpa og léttleiki
en í löngum orðum. Oft fylgir þeim líka meira fjör, ekki síst ef hörð
lokhljóð eru ríkjandi í þeim.“ Dæmið, sem Kristján notar máli sínu til
sönnunar, er tvær vísur, hin fyrri eftir Sigurð Guðmundsson frá Heiði í
Gönguskörðum (Kristján Eiríksson 1990:35):
Lömbin skoppa, hátt með hopp,
hugar sloppin meinum,
bera snoppu að blómsturtopp
blöðin kroppa af greinum.
Eitt sinn þeyttust út um nótt
átta kettir þétt í sprett.
Tuttugu rottur títt og ótt
tættu og reyttu á sléttri stétt.