Són - 01.01.2015, Page 94
92 Þórður HelgAson
og um leið kærara“ (1955:81). Því má svo bæta við að sjálf lengd orðanna
rökkurdimmurautt og flughamrabratt getur enn aukið á mikilleik fyrir-
bæranna.4 Þessi úttekt Helga á hljómum í verkum Snorra Hjartarsonar
er nákvæmasta greining á viðfangsefninu sem enn hefur birst. Hún er
innblásin og full lotningar á því hvernig góður höfundur getur með
orðanna hljóðan leitt lesandann lengra en merking orðanna getur náð.
Ingibjörg Haraldsdóttir virðist nota tt-hljóðið til að senda
Morgunblaðinu kaldar kveðjur í ljóðinu MORGUNBLAÐIÐ – GÓÐAN DAG
(Ingibjörg Haraldsdóttir 1989:17):
Dag eftir
dag eftir
dag
með morgunkaffinu.
Niður kverkarnar.
Út í æðarnar.
Uns þar kemur
að hvítt er svart
svart er hvítt
og rautt
er betra en dautt.
Algengt er að hljóðið dl og aðblásnu lokhljóðin vinni saman að stemn-
ingu ljóðs. Ljóð G[uðmundar] Björnssonar, FÁLKI , sem er um ferð
höf undar á færleik sínum, er fjögur erindi. Fyrsta og þriðja erindi eru
vangaveltur um ferðina, ortar undir einföldum ferskeytluhætti. Annað
og fjórða erindi lýsa flugferð hestsins og þá tekur hringhend ferskeytla
við, augljóslega til að undirstrika með hljómunum átökin (G[uðmundur]
Björnsson 1925:20):
4 Lengd orðanna getur hugsanlega skipt máli ef hún undirstrikar andrúmsloft textans.
Gott dæmi þess er að finna í ljóðinu ÚTMÁNUÐIR úr Þorpinu eftir Jón úr Vör (1967:84):
Og manstu hin löngu, / mjólkurlausu miðsvetrardægur, / útmánaðatrosið, / … Hér
taka hin löngu orð, mjólkurlausu, miðsvetrardægur, útmánaðatrosið, þátt í að lýsa því er
tíminn virðist standa í stað meðan beðið er eftir betri tíð með betri viðurgjörningi.