Són - 01.01.2015, Page 96
94 Þórður HelgAson
Ólafur barðist einkar djarft,
aðsókn harða rénar vart,
stálin skarða skjaldar-part,
skeljungs jarðir titra hart.
Og lýsing Sigurðar á hinni reiðu ljónynju („ljónsinnu“) í Rímum af Núma
Kóngi Pompílssyni styrkist mjög við notkun hins ómstríða (Sigurður
Breiðfjörð 1903:7):
Hennar reiðin svellur sár,
svo vill hreysti reyna,
öskrar, freyðir, hristir hár,
hrömmum kreistir steina.
Davíð Stefánsson tekur í ljóðinu LANDSKJÁLFTI dróttkvæðan hátt,
órímaðan, sem Snorri Sturluson kallaði háttlausu, í þjónustu sína er
hann lýsir hrikaleik jarðskjálftanna. Hér birtist fjórða erindið (Davíð
Stefánsson 1995c:134):
Skyggðu skarðan mána
skýbólstrar hel svartir.
Skar suðurhvel svipult
sindur hrapandi stjörnu.
Ægðu örvona sálum
átök grimmra hríða.
Stöðvaði straum tímans
stund þrungin ógnum.
Hér eru klasarnir rð, sk, rt, hr, rn, gr, str og þr fullfærir um að lýsa
fyrirganginum auk þess sem einliðirnir hel, skar, straum og stund rjúfa
eðlilega hrynjandi og taka undir með skjálftunum. Eftirtektarvert er og
að ljóðstafirnir sk, st og s styrkja enn hljóminn.
Í ljóðinu BOLI eftir Hannes Pétursson eru hljóðin svo áberandi að
við beinlínis heyrum skarkið í dýrinu eins og heyra má í fyrsta erindinu
(Hannes Pétursson 1998:232):
Í hverri gætt þessar hvimandi sjónir
hráblautu granir og fótaspark –
tannagníst er hann tyggur myrkrið.
Titra þiljur við hurðaskark.