Són - 01.01.2015, Page 97
ljóðAHljóð 95
Ómblítt
Hin ómblíðu ljóð einkennast af frammæltu sérhljóðunum í, i og e (ei) og
rödduðum önghljóðum, nefhljóðum og hliðarhljóðum auk klasanna ld,
nd og ng. Þannig hefst VORIÐ GÓÐA eftir Jóhannes úr Kötlum. í-ið, i-ið
og ei-ið leika mikið hlutverk, önghljóð og nefhljóð taka undir (Jóhannes
úr Kötlum 1975:215):
Það seytlar inn í hjarta mitt
sem sólskin fagurhvítt,
sem vöggukvæði erlunnar,
svo undur fínt og blítt,
sem blæilmur frá víðirunni,
vorið grænt og hlýtt.
Í ljóðinu GRUNDIRNAR ANGA eftir Guðfinnu Þorsteinsdóttur leika nd- og
ng- klasarnir mikið hlutverk auk l og n (Guðfinna Þorsteindóttir – Erla
2013:152):
Grænar smáragrundir anga,
glitra daggir. Allt er hljótt.
Ein við skulum úti ganga
unaðsbjarta júlínótt. –
Alnáttúran andar rótt,
inni í húsum blundar drótt.
Ein við skulum yndi fanga
úti þessa björtu nótt.
Ólafur Jóhann Sigurðsson lætur í-ið leika mikið hlutverk í ljóðinu Á
DYMBILDÖGUM og samhljóðin taka undir, ð-hljóðið auk ng-hljóðsins
(Ólafur Jóhann Sigurðsson 1995:35):
Söngfögur nálgast sumartíð,
síðustu hretin dvína;
enn verður jörðin auð og þíð
örlát á mildi sína.
Vorsólin hækkar björt og blíð,
brátt fer að lifna og hlýna;
gaman er þá í grænni hlíð,
grösin mín anga og skína.