Són - 01.01.2015, Qupperneq 98
96 Þórður HelgAson
Í ljóðinu HVÍLD eftir Hannes Pétursson leika hljóðin ekki lítið hlut-
verk, í-ið, ð-ið, nd, ng og ld. Hér birtast fyrsta og þriðja erindi (Hannes
Pétursson 1998:74):
Hjá þér vildi ég hvílast
heiðin mín, á sumartíð
– reika og hvílast, hlýða
um hljóða dagsstund
á ferðasögur fuglanna
sem fara svo langt og víða.
Hjá þér vil ég hvílast
og heyra að kvöldi svefnsins ró
vitja mín vængjuðum skrefum
yfir votan lyngmó –
gleyma, gleyma í þögninni
því sem mér angur bjó.
Hljóðgervi
Í ljóði Davíðs Stefánssonar um krumma eru hljóð hans látin verða stef,
„Krunk, krunk, krá“ (Davíð Stefánsson 1995a:64). Hér notar Davíð hljóð-
gervinga. Gríska orðið onomatopoeia tekur til þess er orð eru mynduð til
að líkja eftir náttúrulegu hljóði og hafa ýmsir fræðimenn, einkum fyrri
tíða, reynt að tengja hljóðgervið við uppruna tungumálanna – en ekki
haft erindi sem erfiði. Krá, bí, me, mö, mjá, gagg, voff eru kannski ekki
eiginleg orð í þeim skilningi að þau taki beygingu en þau falla e.t.v. best
undir hugtakið hljóðgervi. Þau eru fyrst og fremst barnamál og þjóna
þar hlutverki sínu vel. Þessi orð mynda síðan gjarna sagnir og nafnorð
og fá þannig inngöngu í beygingarkerfið: krunka, mjálma, baula, gagga,
voffi.
Kristján Árnason fjallar um hljóðgervið í riti sínu Stíll og bragur og
segir: „Í sumum orðum er eins og sambandið sé beinna og hljómur-
inn líki beinlínis eftir því sem orðin eiga að tákna. Sagnirnar krunka,
mjálma og baula hafa t.a.m. hljóm sem minnir á dýrahljóðin sem þau
eiga að tákna.“ Auk þess getur Kristján hljóðanna ískra, blístra, hvískra
sem „beint hljóðgervi“ (Kristján Árnason 2013:401). Óbeint hljóðgervi
kallar Kristján það er „tiltekin hljóðasambönd tengist tiltekinni merk-
ingu eða merkingarblæ, án þess að beint hljóðlíkindasamband sé milli