Són - 01.01.2015, Page 104
102 Þórður HelgAson
er ljóst að skammt er á milli hugtaksins lydmaleri hjá Kristensen og
hljóðgervis.
Sveinn Sigurðsson fjallar nokkuð um hljóðgervi í grein í Eimreiðinni
árið 1924. Þar segir hann: „Vér heyrum dropana falla í kvæði Guðmundar
Guðmundssonar: Dropatal, klukknahringinguna á Hólum í kvæði
Guðmundar Magnússonar: Hringing, öldugjálfrið í kvæði Hannesar
Hafstein: „Vagga, vagga, víða, fagra undurbreiða haf“, og svo mætti
lengi halda áfram“ (Sveinn Sigurðsson: 1924:108). Hætt er við að hér
líti Sveinn framhjá sjálfum hljóðunum en láti hrynjandina í ljóðunum,
sem hann tilgreinir, villa sér sýn. Því má náttúrlega ekki gleyma að það
hamlar ákvörðunum um hljóðgervi að tungumál þróast og framburður
breytist; það sem við teljum hljóðgervinga hjá eldra skáldi getur sem
best verið skot út í bláinn (Bo 1936:97).
Þess eru mörg dæmi að skáld mynda sambönd, sem lesandinn fær á
tilfinninguna að sé hljóðgervi, með því að raða saman orðum sem saman
mála ákveðinn hljóm. Hér er birt sem dæmi vísa úr þættinum Grettir
fellir berserkina úr GRETTISLJÓÐUM Matthíasar Jochumssonar (Matthías
Jochumsson 1956:617):
Heimboð fundu hér og þar,
hlumdi í lundi Mardallar,
umdu grundir Glóeyjar,
glumdu' í mundum árarnar.
Hér mynda atkvæðin und, hlumd, lund, umd, grund, glumd og mund
sterka, ákveðna samfellu svo tekur undir og undirstrika merkinguna í
eins konar hljóðgervi. Ritdómari Fjallkonunnar er ekki ánægður með
þennan kafla GRETTISLJÓÐA og segir að Matthíasi hafi „nú tekizt einna
lakast við það kvæðið, sem kveðið er með dýrum rímnahætti, rímuna
um berserkina“ („Grettisljóð“ 1898:13-14) og sýnir því engan skiln-
ing að vísast hefur skáldið valið sér hinn dýra hátt, einmitt til að geta
leikið með hljóma orðanna eins og dæmið hér að ofan sýnir. V.J., sem
fjallar um GRETTISLJÓÐ í Þjóðólfi, tekur hins vegar einmitt eftir þessari
vísu og sýnir henni meiri skilning: „Góðar og fagrar lýsingar eru mjög
víða í Grettisljóðum. Þannig má eins og finna þytinn og fögnuðinn í
jólagestunum í byrjun Berserkjarímu … Þannig heyrir maður ruðn-
inginn í vorinu, „er Dofri jötunn fer af stað“ og „risinn tekur sumarbað“
(V.J. 1897:235). Undir það tekur Guðmundur Friðjónsson síðan og segir